Spennuþrungið ástand var fram eftir sumri 2018 þegar reynt var að ná samkomulagi við ríkið um hvernig staðið yrði að afhendingu ganganna í lok september.
Þar strandaði á því að embætti ríkisskattstjóra leysti hnút gagnvart Speli ehf. varðandi skattalega afskrift ganganna og hugsanlega skattlagningu Spalar á árinu 2018.Stjórnarmenn hefðu að óbreyttu getað orðið ábyrgir og fengið bakreikninga frá skattinum.
Stjórn Spalar fjallaði um stöðu mála dag eftir dag þegar tók að líða á sumarið. Þar var meira að segja varpað fram hvort félagið neyddist til að loka göngunum ef Spölur lenti í þeirri stöðu að hafa borgað upp áhvílandi lán án þess að samningar hefðu tekist við ríkið. Til þessa kom þó ekki því hagfelld lausn fékkst á málinu 26. september. Það var tveimur dögum áður en Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra kom í Hvalfjörðinn sem síðasti vegfarandinn sem greiddi veggjald í göngunum.
Þetta kemur meðal annars fram í bókinni Undir kelduna – sagan um Hvalfjarðargöng 1987-2019 eftir Atla Rúnar Halldórsson blaðamann. Í bókinni er fjallað um Hvalfjarðargöng, fyrstu einkaframkvæmdina í samgöngukerfi Íslendinga, frá upphafi til enda, um stormasaman aðdraganda ganganna og framkvæmdirnar sjálfar.