Brauðterturnar sem tóku þátt í brauðtertusamkeppni í Listasafni Reykjavíkur í dag komu til keppni í lögreglufylgd. Alls voru brauðterturnar 17 talsins sem tóku þátt í keppninni, að sögn Erlu Hlynsdóttur, sem var í dómnefnd keppninnar.
Lokað er fyrir umferð í miðborginni í tilefni Menningarnætur og því um langan veg fyrir þá sem áttu heiðurinn að brauðtertunum að ganga með þær í Hafnarhúsið. Aðstandendur keppninnar óskuðu eftir heimild til að þess að keppendur fengju að koma tertunum á keppnisstað með bifreiðum. Vel var tekið í beiðnina og bauð lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fram aðstoð sína og fylgdi hún bílalestinni með terturnar á áfangastað. Allar komust terturnar heilar á höldnu á keppnissvæðið og þar beið dómnefndin tilbúin til að dæma í þremur flokkum; fallegusta, frumlegasta og bragðbesta brauðtertan og voru verðlaun veitt í hverjum flokki.
Bragðbesta brauðtertan: Sólrún Sigurðardóttir: Hamingjuterta
Frumlegasta brauðtertan: Harðfisksambandið sem samanstendur af þeim Kristjáni Thors, Atla Stefáni Yngvasyni og Daníel Thors. Skreiðfáni Jörundar Hundadax
Fallegasta brauðtertan: Sveitasæla Berglind Haðardóttir
Að sögn Erlu stóð til að dómnefndin myndi byrja á að smakka og velja verðlaunahafa í flokkunum þremur og síðan fengju gestir og gangandi að bragða á kræsingunum en terturnar voru svo girnilegar og margt um manninn þannig að svo fór að einhverjir urðu frá að hverfa án þess að fá bita af brauðtertu.
Brauðtertukeppnin í dag átti að vera einstakur viðburður en að sögn Erlu er allt útlit fyrir að keppnin verði endurtekin að ári því viðburðurinn tókst framar öllum vonum og bæði keppendur og gestir farnir að ræða um tertur næsta árs.
Auk Erlu voru þau Siggi Hall og Margrét Sigfúsdóttir í dómnefndinni. Tanja Levý ásamt Valdísi Steinarsdóttur, í samstarfi við Brauðtertufélag Erlu og Erlu, stóðu fyrir keppninni og er Erla Hlynsdóttir annar stofnandi Brauðtertufélagsins Erla & Erla sem nýtur mikilla vinsælda á Facebook.