Flugeldasýning væntanlega að ári

Flugeldasýningin á Menningarnótt í gærkvöldi.
Flugeldasýningin á Menningarnótt í gærkvöldi. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

„Ég held að margir myndu nú sakna þess að enda ekki á flugeldasýningu á menningarnótt,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is. Hann segir flugeldasýningu menningarnætur „mjög sameinandi og frábær endapunktur á einstökum degi.“

Fram hefur komið í umfjöllum mbl.is að rætt hafi verið innan borgarkerfisins hvort flugeldasýningin í ár verður sú síðasta vegna umhverfissjónarmiða og áhrifum flugelda á heilsu astmasjúklinga.

Borgarstjóri segir ekki liggja fyrir nein ákvörðun um að skoða …
Borgarstjóri segir ekki liggja fyrir nein ákvörðun um að skoða hvort flugeldasýningu á menningarnótt skuli hætt. mbl.is/Eggert

„Það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að hætta henni,“ segir Dagur sem jafnframt segir ekki liggja fyrir nein ákvörðun um að skoða málið frekar í sambandi við hátíðarhöldin á næsta ári. „Þessi sjónarmið hafa heyrst í umræðunni og við auðvitað hlustum eftir öllum sjónarmiðum en það hefur ekki verið rætt neitt sérstaklega.“

„Ég hef auðvitað tekið eftir þessari umræðu eins og aðrir og kannski ekkert óeðlilegt að öllu sé velt upp. Það er náttúrulega andinn í loftslagsmálunum að breyta hlutum sem við erum orðin vön. Þó er flugeldasýning á menningarnótt frekar loftgæðamál heldur en loftslagsmál, þó það væri táknrænt að hætta henni,“ útskýrir borgarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka