Gul viðvörun er í gildi á höfuðborgarsvæðinu, í Faxaflóa, á Suður- og Suðausturlandi og á miðhálendinu síðdegis í dag þegar lægð, sem nú er stödd syðst á Grænlandshafi, gengur yfir landið.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að lægðin sé að dýpka og færist nær okkur og að í dag gangi í allhvassa eða hvassa suðaustanátt á Suður- og Vesturlandi með talsverðri eða jafnvel mikilli rigningu.
Lausir munir geti fokið í þessum vindstyrk, svo sem garðhúsgögn og trampólín, og því sé rétt að festa eða koma slíkum hlutum í skjól.
Vindhviður við fjöll geta náð um eða yfir 30 m/s, t.d. við Eyjafjöll, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall og getur verið varasamt að vera þar á ferðinni, sér í lagi á ökutækjum sem viðkvæm eru fyrir vindi.
Á Norður- og Austurlandi verður ágætt veður fram eftir degi, mun hægari vindur og þurrt að kalla. Í kvöld jafnast vindstyrkur hins vegar úr og má þá búast við strekkingsvindi víða um land. Mjög vætusamt verður á öllu landinu.
Umrædd lægð mun halda áfram að ráða veðrinu í byrjun næstu viku, en á mánudag er útlit fyrir sunnanstrekking og allhvassan vind.
Á landinu norðvestanverðu og á vesturströndinni verður hins vegar væntanlega mun hægari vindur, nokkurs konar „svikalogn“ inni í lægðarmiðjunni.
Áfram rignir víða með þokkalegum hita eða 10 til 14 stigum. Á norðaustanverðu landinu á mánudaginn er hins vegar útlit fyrir þurrt og bjart veður og allt að 20 stiga hita í hnjúkaþey, hlýjum vindi sem stendur af fjöllum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á mánudag:
Sunnan 10-18 m/s, en lengst af hægari vindur norðvestan til á landinu. Víða rigning og hiti 10 til 14 stig, en þurrt og bjart um landið norðaustanvert með allt að 20 stiga hita.
Á þriðjudag:
Suðlæg átt með skúrum á vesturhelmingi landsins. Rigning suðaustanlands, en bjart veður norðaustan til. Hiti 8 til 17 stig, hlýjast norðaustanlands.
Á miðvikudag:
Breytileg átt og skúrir eða dálítil rigning í flestum landshlutum. Hiti 8 til 14 stig.
Á fimmtudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt. Skýjað og lítils háttar væta um landið norðanvert, en skúrir sunnan til. Hiti breytist lítið.
Á föstudag:
Norðaustanátt með dálítilli rigningu, en þurrt sunnan heiða. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast á Suðurlandi.
Á laugardag:
Útlit fyrir vaxandi austanátt með rigningu, en þurrt norðanlands.