Fiskveiðinefnd Evrópuþingsins ætlar að ræða mögulegar viðskiptaþvinganir vegna „einhliða töku Íslands og Grænlands á makríl“ á fundi 4. september. Rússar eru hins vegar ekki nefndir þótt staða þeirra sé sambærileg við stöðu Íslands og Grænlands hvað veiðarnar varðar.
„Þeir geta lokað höfnum fyrir okkur og reynt að loka mörkuðum og eitthvað fleira,“ segir Kristján Freyr Helgason, formaður samninganefndar Íslands um deilistofna strandríkja við N-Atlantshaf, í umfjöllun ummál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Hann sagði að íslensk stjórnvöld hefðu haft samband við Evrópuþingið í síðustu viku og boðið Chris Davies, breskum formanni fiskveiðinefndarinnar, og öðrum áhugasömum nefndarmönnum að koma hingað og heyra okkar hlið. Chris Davies hefur verið harðorður í garð Íslendinga og Grænlendinga vegna makrílveiða þeirra. Kristján kvaðst bíða eftir því að heyra hvort boðið verður þegið.
Hann sagði að ESB hefði verið óánægt með ákvarðanir Íslendinga, Grænlendinga og Rússa um kvótaaukningu. Ísland fékk bréf frá framkvæmdastjórn ESB þar sem lýst var miklum vonbrigðum með ákvörðunina. ESB kvaðst vera að fara yfir málin og skoða yrði hvort beitt yrði reglugerð um viðskiptaþvinganir.