Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás á konu fyrir utan skemmtistaðinn Lundann í Vestmannaeyjum í september 2016.
Fram kemur í ákæru að maðurinn, Hafsteinn Oddsson, hafi slegið konuna höggi í andlit fyrir utan skemmtistaðinn með þeim afleiðingum að hún hafi fallið til jarðar. Skömmu seinna hafi hann veist aftur að konunni með ítrekuðum höggum og spörkum í andlit og búk og klætt hana úr öllum fötunum og því næst yfirgefið hana þar sem hún lá nakin, mikið slösuð og bjargarlaus á götunni.
Við þetta hafi konan hlotið brot í gólfi hægri augntóftar, mar og mjúkpartabólgur á augn- og kinnsvæðum, opinn skurð fyrir ofan vinstra auga sem sauma hafi þurft saman með 5 sporum. Ennfremur mar á nefi og höku, blóðnasir og blóð í munni, skrapsár aftan á hnakka, roða og skrapsár yfir brjósthrygg, roða og eymsli ofarlega á vinstri rasskinn og ofkælingu.
„Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að árás ákærða var að tilefnislausu og ofsafengin, en hann klæddi jafnframt brotaþola öllum fötum með harðræði og skildi hana eftir bjargarlausa með öllu. Þá er óhjákvæmilegt að líta til þess að all langt er um liðið án þess að ákærða verði um þann drátt kennt. Að öllu þessu virtu þykir hæfilegt að ákærði sæti fangelsi í 6 ár, sem ekki kemur til álita að binda skilorði,“ segir í dómnum.
Hafsteinn var ennfremur dæmdur til þess að greiða konunni 3,5 milljónir króna í miskabætur ásamt vöxtum en konan hafði farið fram á 8 milljónir króna í bætur. Þá var hann dæmdur til þess að greiða samtals 8,2 milljónir króna í málskostnað.