Sjúkraflugvél rakst á gæsager

Sjúkraflugvél Mýflugs lenti á gæsahópi í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli í …
Sjúkraflugvél Mýflugs lenti á gæsahópi í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli í dag. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Sjúkraflugvél frá Mýflugi rakst á gæsager í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli í dag. Engan sakaði, en vélin er töluvert skemmd að sögn Leifs Hallgrímssonar, framkvæmdastjóra Mýflugs. Fyrst var greint frá þessu á vef Ríkisútvarpsins.

Leifur segir í samtali við mbl.is að tveir sjúklingar hafi verið um borð í vélinni, en verið var að flytja þá frá Reykjavík frá Akureyrar. Flugvirkjar Mýflugs munu koma frá Akureyri á morgun að kanna skemmdirnar á vélinni, en þær eru umtalsverðar. Leifur segir það mildi að enginn hafi slasast í atvikinu. „Það er aðalatriðið,“ segir hann.

Farþegi sem var um borð í vélinni að fylgja eiginkonu sinni í sjúkraflugi lýsti því sem svo við Ríkisútvarpið að flugvélin hefði verið komin út á enda flugbrautarinnar er hún fékk á sig högg og hristist til. Flugmennirnir brugðust hratt við og náðu að stöðva vélina.

„Það er bara alltaf sama sagan þegar flugvél flýgur í fuglahóp og sérstaklega ef það eru gæsir, þær eru svo stórar og þungar. Það er beyglað og bogið og blóðugt og brotið,“ segir Leifur, en um er að ræða aðalsjúkraflutningavél félagsins. Hann býst við því að hún verði frá í einhverja daga eða vikur.

Of mikið af gæsum í Vatnsmýrinni

Leifur segir að hann hafi beint því til Isavia að fyrir einu eða tveimur árum síðan að eitthvað þyrfti að gera til þess að losna við gæsir af flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni, þar sem þær sköpuðu hættu.

„Þá var mér sýnd einhver skýrsla sem þeir höfðu gert. Ég sagði nú þá að mér þætti peningum Isavia betur varið í aðgerðir til þess að fá gæsirnar burt, frekar en að gera skýrslu. Ég hef ekki séð það að gæsirnar fari, þrátt fyrir skýrsluna,“ segir Leifur.

„Það hefði getað farið mun verr,“ segir hann og rifjar upp flugslysið sem varð í Moskvu fyrr í mánuðinum, er litlu munaði að gríðarlega illa færi eftir að farþegaþota rakst á mávager í flugtaki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert