Sterkir sviptivindar urðu þess valdandi að Herjólfur IV gat ekki siglt til Landeyjahafnar í gær, en sama staða er uppi á teningnum í dag og því siglir Herjólfur III til Þorlákshafnar. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir að í ljósi þess framkvæmda í Landeyjahöfn og þess að enn sé unnið að fínstillingum stjórnbúnaðar ferjunnar hafi verið ákveðið að reyna ekki á að sigla til Landeyjahafnar á Herjólfi IV við þessar aðstæður.
Ástæða þess að Herjólfur IV getur ekki siglt til Þorlákshafnar er að þar eru hafnarmannvirki ekki tilbúin fyrir ferjuna. „Það er stór ákvörðun að skipta um höfn. Það fer mikið viðbragð í gang hér hjá okkur. Þetta er mikil vinna og álag og menn taka ekki þessa ákvörðun nema nauðsyn krefji,“ segir Guðbjartur.
„Ástæðan fyrir því að við gátum ekki notað nýju ferjuna eins og okkur langaði og hugnaðist, til að láta reyna á hana við þessar nýju aðstæður, helgast af því að hafnarmannvirkin í Þorlákshöfn voru bara ekki tilbúin fyrir nýju ferjuna,“ segir Guðbjartur, en stefnt er að því að höfnin verði sambærileg þeirri í Vestmannaeyjum og Landeyjahöfn að uppsetningu. „Báðar ferjurnar eiga að geta gengið upp að mannvirkjunum og að ekjubrýrnar eiga að passa fyrir bæði skipin,“ segir hann.
Sem fyrr segir eru sviptivindar aðalástæða þess að Herjólfur IV siglir ekki til Landeyjahafnar. „Eitt er ölduhæðin, en hún var ekki endilega það sem var að trufla menn. Í Landeyjahöfn hefur undanfarið verið unnið að lagfæringu á görðum og fleiru. Aðstaðan hefur verið þröng, til þess að gera. Sviptivindarnir voru þess eðlis að það var talið ásættanlegt að reyna þetta,“ segir Guðbjartur, en þar að auki á eftir að stilla stjórnbúnað skipsins betur.
„Við höfum unnið að því með framleiðanda búnaðarins að stjórnbúnaðurinn svari skipunum hraðar. Þegar svona sviptivindar eru þarftu að hafa þennan búnað alveg fínstilltan og í lagi. Af öryggisástæðum var talið skynsamlegt að reyna þetta ekki við þessar aðstæður,“ segir hann.
Herjólfur III er sem fyrr segir til taks, en hvenær er áætlað að Herjólfur IV geti sjálfur staðið undir ferjusiglingum milli lands og Eyja, bæði til Landeyjahafnar og Þorlákshafnar?
„Við erum með þurrleigusamning um afnot af gömlu ferjunni. Einhvern tímann á næsta ári kemur það til endurskoðunar. Ástæðan er í fyrsta lagi sú að nýja ferjan er ný og það þarf að tilkeyra nýjan búnað og máta ferjuna í þessar siglingaleiðir. Við höfum ekki haft vissu fyrir því hvað ferjan er öflug, sérstaklega á siglingarleiðinni Vestmanneyjar-Þorlákshöfn,“ segir Guðbjartur.
„Í nýjum skipum eru alltaf ýmsir agnúar sem þarf að sníða af og leysa. Meðan við erum að koma nýju ferjunni í fullan rekstur er gott að hafa aðgengi að þeirri gömlu. Hún hefur auðvitað reynst okkur frábærlega. Það kostar fyrirhöfn og vinnu að skipta á milli skipa og það er ekki ákjósanlegt, en til að halda uppi ferjusiglingum á áætlun er þetta nauðsynlegt meðan við komum hinni í fullan rekstur á fullum afköstum,“ segir hann.
Ákveðið var að opna fyrir skráningu í kojur í Herjólfi III þegar ljóst varð að sigla þyrfti til Þorlákshafnar, en ferðin er lengri sem kunnugt er. Færri kojur eru í Herjólfi IV segir Guðbjartur. Hann segir aðspurður að það muni einhver áhrif hafa í siglingum til Þorlákshafnar en nefnir að nýja ferjan hafi verið hönnuð með það í huga að hægt sé að bæta við kojum í hluta rýmisins.
„Þá næðum við sennilega að auka kojufjöldann þannig hann verði u.þ.b. 2/3 af því sem gamla ferjan var með. Sú gamla er með um 90 kojur og um 30 kojur eru til staðar fyrir farþega í nýju ferjunni en verða 62 þegar þessar viðbótarkojur eru settar upp,“ segir hann.
„Við reynum að vinna úr þeim aðstæðum sem við höfum og halda uppi því þjónustustigi sem kallað er eftir. Ég hef ekki séð hönnunina á þessum kojum, en þetta var sett inn í smíðalýsingu skipsins svo hún gæti sinnt þessum siglingum til Þorlákshafnar,“ segir Guðbjartur. „Maður var svekktastur núna með að geta ekki siglt nýju ferjunni til Þorlákshafnar og fengið að reyna á skipið við þessar haustlægðir sem hafa svolítið verið að trufla okkur,“ segir hann.