Markvissum aðgerðum, svo sem ljósabyssum og viðvörunarljósum, er beitt til þess að sporna við því að fuglalíf valdi hættu á Reykjavíkurflugvelli, segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrú Isavia, í samtali við mbl.is.
Eins og greint var frá í gær rakst sjúkraflugvél á gæsager í flugtaksbruni á Reykjavíkurflugvelli og sagði Leifur Hallgrímsson hjá Mýflugi, fyrirtækinu sem rekur umrædda flugvél, að hann hefði beint því til Isavia fyrir einu eða tveimur árum að eitthvað þyrfti að gera til að losna við gæsir af flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni, sökum hættunnar sem stafaði af þeim.
Segir Guðjón að aðferðafræði við fælingu fugla, sem samþykkt er af umhverfisráðuneyti, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafi verið beitt í hartnær 10 ár. Aðferðafræðin sé þó að sjálfsögðu endurskoðuð á ári hverju út frá nýjustu tækni og möguleikum.
Að auki við að beita svokallaðari beinni fælingu, líkt og fæluhljóðum, viðvörunarljósum, ljósabyssum og gasbyssum sem er komið fyrir á flugvallarsvæðinu, sé einnig beitt fyrirbyggjandi fælingu. Í því felist m.a. að Isavia tryggi að villtar dýrategundir komi sér ekki almennilega fyrir. „Við höfum einnig fangað fugla og flutt þá annað.“
„Auðvitað er fluglalíf víða á landinu og við flugvelli á landinu – en við höfum greint hvenær árs er mikið, lítið eða jafnvel ekkert af fuglum á svæðunum og högum aðgerðum eftir því – eins og gert er á flugvöllum um allan heim. Þannig að allar fullyrðingar um aðgerðaleysi eru gjörsamlega úr lausu lofti gripnar. Við sem fyrirtæki störfum á alþjóðlegum vettvangi og þar fylgjumt við einnig með því hvernig erlendir flugvellir haga þessum málum og sækjum einnig í þeirra reynslubrunn,“ segir Guðjón.