Engar vísbendingar hafa fundist um hvar lík belgíska ferðamannsins er að finna á botni Þingvallavatns sem talinn er hafa fallið í vatnið 10. ágúst. Kafbátur í eigu Teledyne Gavia var settur út við Miðfell til að skanna botninn með sónar og taka um 50 þúsund ljósmyndir af dýpstu hlutum vatnsins á 22. ágúst.
Þau gögn sem söfnuðust og búið er að fara í gegnum hafa ekki gefið neinar haldbærar vísbendingar, að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns lögreglunnar á Suðurlandi. Ekki er þó búið að fara í gegnum öll gögn sem söfnuðust en unnið er að því.
Ekki er líklegt að kafbáturinn verði sendur aftur út til leitar í vatninu því hann skannaði yfir umfangsmikið svæði. Auk þess eru leitarskilyrði erfið í vatninu, sérstaklega þar sem ótal gjár og gjótur þekja botninn. Hlé hefur því verið gert á formlegri leit en viðbúið er að björgunarsveitarmenn munu fara yfir svæðið eitthvað næstu daga.
Í leit björgunarsveita og lögreglu að manninum var meðal annars stuðst við lýsingar Veigu Grétarsdóttur kajakræðara, sem mætti manninum á siglingu í Siglufirði yfir í Héðinsfjörð nokkrum dögum áður. Þetta staðfestir Sveinn Kristján.
Í viðtali við mbl.is greindi hún frá því að henni hafi ekkert litist á ferðalag mannsins því hann var vanbúinn til siglingar á sjó og vatni. Um leið og hún heyrði að hans væri leitað á Þingvallavatni hafði hún samband við lögregluna og lýsti búnaði hans. Hann var meðal annars ekki í björgunarvesti og íklæddur léttum göngufatnaði.