Rekstrarhalli Landspítalans samkvæmt hálfsársuppgjöri spítalans nam 2,4 milljörðum króna og er áætlað að hann verði 4,5 milljarðar á árinu að óbreyttu. Þetta staðfestir Ólafur Darri Andrason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala, í samtali við mbl.is.
Áður greindi mbl.is frá því að heimildir hermdu að halli spítalans yrði um 5 milljarðar á árinu að óbreyttu eða því sem nemur 7,8%. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, var spurður í kvöldfréttum RÚV 15. ágúst hvort stefndi í fimm milljarða halla, en því neitaði forstjórinn.
Þá hefur forstjórinn sagt frá því á vef spítalans að fjárhagsstaðan sé alvarleg og að þörf sé á að „þrengja verulega að rekstrinum“ vegna þessa.
Ólafur Darri segir áætlun spítalans upp á 4,5 milljarða króna rekstrarhalla taki aðeins til þekktra stærða og að ekki sé tekið tillit til mögulegra fjárheimilda sem eru enn til skoðunar. Þá er beðið svars yfirvalda vegna ýmissa fjármögnunarþátta. Einnig eru til skoðunar launabætur sem spítalinn telur vanáætlaðar og bendir hann á að framleiðslutengdar greiðslur Sjúkratrygginga Íslands geti skilað auknum tekjum í árslok.
Þá er unnið að því að laga rekstur spítalans að fjárhagsstöðu hans, bætir framkvæmdastjórinn við.
Þann 15. ágúst hafði mbl.is eftir Haraldi Benediktssyni, varaformanni fjárlaganefndar Alþingis, að ljóst hefði verið í hvað stefndi í vor þegar þriggja mánaða uppgjör spítalans lá fyrir. Sama dag funduðu fulltrúar spítalans með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins til þess að kynna þær aðgerðir sem gripið er til vegna rekstrarstöðu Landspítala.
Í fyrra skilaði Landspítali 1,4 milljarða halla, en það ár jókst framlag ríkissjóðs til spítalans um 5,6 milljarða eða því sem nemur 10%. Alls hafa framlög ríkisins til spítalans aukist um 25% frá árinu 2016.