Sýslumannsembættið áætlar að um 50% allrar skammtímaleigu hér á landi fari fram án leyfis, en fjöldi skráðra heimagistinga hefur þó nær tvöfaldast frá því að sérstöku átaki í þeim efnum var hrundið af stað síðasta sumar. Skráðar heimagistingar voru 1.056 í lok árs 2017 en 2.022 í lok árs 2018.
Í lok síðasta árs höfðu alls 3.539 einstaklingar og lögaðilar skráð heimagistingu eða aflað sér tilskilins rekstrarleyfis til skammtímaleigu húsnæðis hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, sem sér um skráningu eða leyfisveitingu.
Þar af voru 2.022 aðilar með skráðar heimagistingar sem krefjast ekki frekara rekstrarleyfis, fari leigan ekki umfram 90 daga á ári.
Það sem af er ári hefur sýslumaður svo staðfest 2.033 skráningar, en skráningin gildir fyrir hvert almanaksár og þarf að endurnýja hana á hverju ári. Þetta kemur fram í svari ráðherra ferðamála við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins, sem birt var á vef Alþingis í dag.
Þorsteinn spurði einnig um kostnað við hið sérstaka átak sem hrundið var af stað til þess að fylgjast betur með heimagistingum. Hann spurði hve mikið átakið hefði kostað og hve miklum tekjum það hefði skilað á móti.
Í svari ráðherra segir að áætlaður kostnaður sýslumannsembættisins hafi verið talinn nema 64 milljónum króna – og gert hafi verið ráð fyrir því að bætt skattskil og sektargreiðslur myndu vega þann kostnað upp. Það hefur staðist, samkvæmt svari ráðherra, en samanlagðar fjárhæðir álagðra og fyrirhugaðra stjórnvaldssekta nemur hærri fjárhæð en útlagður kostnaður af auknu eftirliti.
„Er þá ekki tekið mið af óbeinum áhrifum á borð við aukin skattskil, framboð á leiguhúsnæði og jafnari samkeppnisgrundvöll,“ segir í svarinu.
Þorsteinn spurði einnig um fjölda gistirýma sem væru í boði hér á landi á bókunarkerfum á borð við AirBnB og viðlíka þjónustum. Í svarinu vísar ráðherra til talna sem sjá má í Mælaborði ferðaþjónustunnar, en þar eru upplýsingar um fjölda rýma á síðunum AirBnB og HomeAway í júní 2019.
Alls eru rýmin 8.134 talsins og sundurliðast þau með eftirfarandi hætti eftir landshlutum: