Ljósanótt verður haldin í 20. sinn dagana 4. til 8. september. Hátíðin mun þó spanna sex daga þar sem tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hljómahöll 3. september er upptaktur að Ljósanótt. Í tilefni 25 ára afmælis Reykjanesbæjar er íbúum boðið ókeypis á tónleikana. Ljósanótt í Reykjanesbæ var fyrst haldin árið 2000 og var þá einn dagur en nú nær hátíðin yfir tæpa viku.
Hátíðin í ár er sérstaklega kynnt sem „Plastlaus Ljósanótt“ og er það liður í umhverfisátaki Reykjanesbæjar. Settar verða upp flokkunar ruslatunnur á hátíðarsvæðinu og íbúar keppast nú við að sauma margnota poka í pokastöð Bókasafnsins „Saumað fyrir umhverfið“ til að nota í verslunum í bæjarfélaginu. Vonast er til að sem flestir taki tillit til þessa átaks.
„Menningar- og fjölskylduhátíðin Ljósanótt í Reykjanesbæ hefur nefnilega breyst á þessum 20 árum í þá átt að verða sífellt meiri svokölluð þátttökuhátíð. Bæjarbúar hafa orðið virkari í því að skapa þá hátíð sem þeir vilja halda með því að standa sjálfir fyrir ýmis konar viðburðum og við það eykst gildi hennar til muna,“ er haft eftir Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa Reykjanesbæjar í tilkynningu.
Í ár er sjónum beint sérstaklega að erlendum íbúum bæjarins en u.þ.b. fjórðungur bæjarbúa er af erlendum uppruna og þar af flestir frá Póllandi. Listasafn Reykjanesbæjar hefur af því tilefni sett upp stóra sýningu á úrvali af pólskum grafíkverkum og tónlistarmenn frá Póllandi taka þátt í dagskránni.
Dagskráin er fjölbreytt og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.