Unnið er að því að breyta gamla Héðinshúsinu við Seljaveg í hótel. Verksmiðjuhúsin á bak við sem þekkt eru sem leikhús Loftkastalans og íþróttahús Mjölnis hafa verið rifin og er verið að flytja brakið í burtu.
Raunar mun húsið sem sést í lengst til hægri einnig víkja fyrir fjölbýlishúsi. Þarna á milli verður gerður hótelgarður sem tengir saman hótel og íbúðarhús.
Hótelkeðjan CenterHotels stendur fyrir framkvæmdunum á Seljavegi 2. Kristófer Oliversson forstjóri segir að framhúsið, hið eiginlega Héðinshús, verði látið halda sér og þar verði innréttað tæplega 150 herbergja hótel og í vélsmiðjusal Versins sem er áfastur verði veitingahús og önnur þjónusta við hótelgesti.
Áætlað er að taka hótelið í notkun á komandi vetri. Áform eru um stækkun með því að byggja hæð ofan á húsið og tvær hæðir á Verið.