Kominn niður í fimm mínútna bút

Karl Gauti Hjaltason á Alþingi.
Karl Gauti Hjaltason á Alþingi. mbl.is/​Hari

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, reiknar með því að flytja allt að þrjár fimm mínútna ræður á Alþingi í dag um þriðja orkupakkann.

„Mér sýnist það hugsanlega vera minn skammtur. Aðrir geta auðvitað verið lengur ef þeir hafa ekki talað um málið áður. Ég er kominn í fimm mínútna bút,” segir Karl Gauti, sem er fyrstur á mælendaskrá.

Samkomulag er um að umræðunni um orkupakkann, sem hefst klukkan 10.30, ljúki í síðasta lagi klukkan 20 í kvöld. Hver flokkur fær að minnsta kosti klukkutíma en ef sá tími er ekki notaður er mælendaskráin opin. Karl Gauti segist reikna með að Miðflokkurinn muni nýta þann tíma ef aðrir gera það ekki.

Þingmenn Miðflokksins. Frá vinstri sitja við borðið Karl Gauti Hjaltason, …
Þingmenn Miðflokksins. Frá vinstri sitja við borðið Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Anna Kolbrún Árnadóttir og Ólafur Ísleifsson. mbl.is/​Hari

Með nóg í pokahorninu 

Fyrsta ræða Karls Gauta í dag er sú 36. í röðinni um þriðja orkupakkann. Spurður hvort hann hafi eitthvað nýtt fram að færa í málinu segist hann hafa fullt af nýjum atriðum í pokahorninu.

„Til dæmis hef ég tekið eftir því að það er ekki nokkur maður sem ver það lengur að þessir íslensku fyrirvarar séu haldlausir. Ég hef ekki heyrt stjórnmálamenn reyna neitt að verja það að þetta sé haldlaust eins og við höfum haldið fram allan tímann. Núna tala þeir meira um að þetta sé nauðsynlegt samstarfsins vegna að samþykkja þetta. Ég mun líklega minna þá á það, fara yfir þessa fyrirvara sem voru forsenda málsins í vor og eitt og annað,” greinir hann frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert