Yfir fimmtíu landeigendur og sumarbústaðaeigendur í Landsveit hittust á fundi í gærkvöldi til að ræða um hvernig þeir geti brugðist við áformum um stórfellda uppbyggingu ferðaþjónustu á jörðinni Leyni.
Gagnrýnt er að þessi stóru áform hafi ekki verið kynnt næstu nágrönnum, hvað þá íbúum sveitarinnar almennt. Uppbygging slíks ferðamannaþorps sé algerlega fordæmalaus hér á landi. Alls er um 35 hektara að ræða en skipulagssvæðið er 25 hektarar. Nefnd landeigenda og sumarhúsaeigenda ætlar að hittast um næstu helgi.
Fyrirhuguð uppbygging á jörðinni Leyni í Rangárþingi ytra hefur komið fólki í sveitinni í opna skjöldu og óánægju gætir með umfang hennar. Eigandi jarðarinnar er einkahlutafélagið Eternal Resort ehf. Skráður stjórnarformaður er Ooi Cheng Soon og samkvæmt upplýsingum með ársreikningi félagsins eru eigendur fjórir og allir með íslenska kennitölu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Þarna hefur alltaf verið mikill friður og ró en nú er bara verið að búa til 350 manna þorp,“ segir Margrét Grétarsdóttir, sem býr á Stóra-Klofa í Landsveit við hliðina á Leyni.