Orkupakkinn ræddur fram og til baka

Guðlaugur Þór sagði Sigmund Davíð „rugla saman ólíkum málum“ með …
Guðlaugur Þór sagði Sigmund Davíð „rugla saman ólíkum málum“ með því að tengja málaferli ESB á hendur Belgíu við innleiðingu Íslands á orkupakkanum. mbl.is/Eggert

Þriðji orkupakkinn svokallaði hefur verið til umræðu á Alþingi í allan dag og má segja að þar hafi hart verið tekist á, en þingfundi var frestað á áttunda tímanum í kvöld. Þingmenn Miðflokksins hafa rætt málið og sagt það geta stórskaðað hagsmuni Íslendinga. Aðrir þingmenn, bæði úr röðum stjórnar og stjórnarandstöðu, hafa sagt það af og frá og sakað þingmenn Miðflokksins um að fara með fleipur.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins ræddu málið áfram í Kastljósi á RÚV í kvöld, en þeir tókust harkalega á í þinginu í dag eftir að Sigmundur Davíð sakaði Guðlaug Þór um að vera haldinn þráhyggju gagnvart sér eftir að utanríkisráðherra minntist á að það hefði verið Sigmundur Davíð, þá forsætisráðherra, sem hefði rætt lagningu sæstrengs til Íslands við David Cameron forsætisráðherra Bretlands árið 2015.

„Umræðan í sumar er búin að vera mjög gagnleg. Hún er búin að vera furðumikil í fjölmiðlum og í samfélaginu,“ sagði Sigmundur Davíð, spurður um það í Kastljósi hvað hefði nýtt komið fram í orkupakkamálinu í sumar. Hann vísaði einnig til skýrslu sem samtökin Orkan okkar létu vinna og birtu fyrr í mánuðinum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt Karli Gauta Hjaltasyni í þinginu í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ásamt Karli Gauta Hjaltasyni í þinginu í dag. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð sagði það einnig hafa komið í ljós í sumar hvaða afleiðingar innleiðing orkupakkans gæti haft á Íslandi og vísaði í því samhengi til málaferla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins gegn belgíska ríkinu, vegna ófullnægjandi innleiðingu orkupakkans.

Guðlaugur Þór sagði Sigmund Davíð „rugla saman ólíkum málum“ með því að tengja þetta mál við innleiðingu Íslands á orkupakkanum. Hann segir Belga ekki hafa innleitt reglurnar með réttum hætti, en að það hafi enginn umsagnaraðili haldið því fram að Íslendingar væru að falla í sömu gryfju og Belgar. „Það stenst ekki eina einustu skoðun,“ sagði utanríkisráðherra.

Hinn svokallaði þingstubbur, sem samið var um að myndi klárast áður en haustþing hefst, heldur áfram á morgun kl. 10:30. Samkvæmt samkomulagi þingflokka stendur til að greiða atkvæði um þau mál sem að orkupakkanum snúa á mánudaginn, 2. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka