Ráðist var á fimmtán ára gamla drengi með rafbyssu og hnífum á skólalóð í Kópavoginum í gærkvöldi og voru drengirnir með sýnilega áverka eftir líkamsárásina. Árásarmennirnir eru fjórir til fimm piltar á aldrinum 16 til 18 ára en þeir fóru af vettvangi á bifreið áður en lögregla kom á staðinn.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var tilkynnt um árásina klukkan 22:52 í gærkvöldi og átti hún sér stað á skólalóð í hverfi 203.
Lögreglan stöðvaði bifreið þeirra í Rofabæ í Árbæ og voru fjórir í bifreiðinni. Þeir voru handteknir og færðir á lögreglustöð þangað sem foreldrar þeirra síðan mættu. Skýrsla var tekin af ungu mönnunum þar sem foreldrar þeirra voru viðstaddir og voru þeir síðan lausir eftir að vopn þeirra, rafbyssa, hnífur o.fl., voru gerð upptæk og afsöluðu eigendurnir vopnunum til eyðingar.
Foreldrar drengjanna sem urðu fyrir árásinni fóru með þá á slysadeild Landspítalans til skoðunar.
Tilkynnt um innbrot í skóla, í hverfi 104, skömmu fyrir þrjú í nótt en talið er að engu hafi verið stolið.
Tilkynnt var um innbrot og þjófnað á bensínstöð í miðborginni í nótt. Þar hafði maður brotið sér leið inn og var að hlaupa frá vettvangi með þýfi í höndum þegar lögreglu bar að. Maðurinn var handtekinn á hlaupunum skammt frá vettvangi og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í Austurbænum (hverfi 105) síðdegis í gær en tilkynnt hafði verið um stuld á bifreiðinni. Ökumaðurinn er grunaður um nytjastuld bifreiðar og þjófnað á skráningarnúmerum bifreiða, akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum, vörslu fíkniefna, skjalafals o.fl. Ökumaðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Skömmu fyrir miðnætti hafði lögreglan afskipti af manni við störf á beltagröfu á byggingarsvæði í miðborginni. Maðurinn kvaðst hafa verið við störf síðan kl. 11:00 og hafa ætlað að klára ákveðið verk en mikill hávaði var frá tækinu. Manninum var gert að hætta strax, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna auk fleiri lögbrota.