Á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur í gær var samþykkt að draga til baka ákvörðun fulltrúa meirihlutans frá 25. júní um strætókort til nemenda í grunnskólum borgarinnar.
Hugmyndin var að strætó tæki við af skólaakstri en þau áform munu hafa mætt mikilli andstöðu foreldra barna sem nýtt hafa sér skólaakstur.
Málið var sent aftur til umsagnar skólaráða og foreldrafélaga. Áður hafði láðst að leita umsagna allra skóla sem þurft hafa að treysta á skólaakstur. Umsagnarfrestur er til 15. september og eftir það kemur málið aftur inn á borð skóla- og frístundaráðs til afgreiðslu.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks gerðu bókun og tóku undir sjónarmið foreldra um „að falla eigi frá því að afleggja skólaakstur en þannig verði öryggi skólabarna best tryggt til og frá skóla, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.