Bæjarstjórn Akraness og sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar skora á ríkisstjórn Íslands að gera breytingu á stefnu sinni í málefnum orkufreks iðnaðar.
Sveitarfélögin funduðu í byrjun þessarar viku „vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í atvinnumálum á Grundartanga og leitt getur til verulegs samdráttar í starfsemi orkukræfs iðnaðar og fækkun starfa,“ að því er segir í tilkynningunni. Segja þau rekstrarumhverfi orkukræfs iðnaðar á Íslandi hafa versnað til muna og það samkeppnisforskot sem hér hafi verið í orkuverði sé algjörlega horfið.
Benda sveitafélögin í bréfi sínu á að núverandi atvinnustarfsemi á Grundartangasvæðinu hafi byggst upp á löngum tíma og sé „gríðarlega mikilvæg fyrir sveitarfélögin á Vesturlandi, Akranes, Hvalfjarðarsveit og í vaxandi mæli Borgarbyggð. Nærri lætur að um 1.100 bein störf séu í þeim 20 atvinnufyrirtækjum sem þar reka starfsemi og annar eins fjöldi starfa tengist þjónustu við þessi fyrirtæki og þá sérstaklega stærstu fyrirtækin Elkem og Norðurál.“
Undanfarin ár hafi verið unnið ötullega að því í samvinnu Þróunarfélags Grundartanga, Norðuráls, Elkem og Faxaflóahafna að finna, greina og nýta þau tækifæri sem svæðið búi yfir til vaxtar og aukinnar verðmætasköpunar. Í þeirri vinnu hafi sérstök áhersla verið lögð á umhverfismál, nýsköpun og fullnýtingu efnis- og auðlindastrauma á sviði orkuvinnslu og orkuendurvinnslu sem nýtt verði til uppbyggingar nýrra fyrirtækja með tilheyrandi fjölgun starfa.
„Því miður er nú margt sem bendir til þess að sú mikla vinna sé unnin fyrir gíg vegna breytinga á rekstrarumhverfi orkukræfs iðnaðar á Íslandi. Afleiðingar þessa má m.a. sjá í niðurstöðu gerðardóms um orkuverð til Elkem á Grundartanga“ segir í tilkynningunni.
Stjórnvöld á Íslandi hafi skapað orkukræfum iðnaði „góð skilyrði til rekstrar með sanngjörnu raforkuverði“ og fyrir vikið hafi hingað komið öflug fyrirtæki sem hafi mörg hver verið í rekstri um áratugaskeið.
Þessi fyrirtæki hafi jafnframt greitt há laun og haft jákvæð áhrif á uppbyggingu sinna nærsamfélaga, auk þess sem þau hafi lagt mikið af mörkum til uppbyggingar raforkuinnviða samfélagsins í heild.
Einnig benda sveitarfélögin á að fyrirtæki á Grundartanga séu í dag „lykilframleiðendur ýmissa sérvara sem leitað er eftir til lausnar í þeim orkuskiptum sem nú eru að eiga sér stað og kallað er eftir á heimsvísu“.
Rekstrarumhverfi orkukræfs iðnaðar á Íslandi hafi hins vegar nú versnað það mikið að samkeppnisforskotið sem hér hafi verið í orkuverði sé nú algjörlega horfið. Þess vegna kalli sveitastjórnirnar því svörum um hver hafi tekið ákvörðun um þessa stefnubreytingu og á hvaða vettvangi.
Birtingarmynd ákvörðunar sé hins vegar sú að Landsvirkjun, fyrirtæki í ríkiseigu, hafi „í krafti einokunarstöðu í raforkusölu á stórnotendamarkaði knúið fram mjög miklar verðhækkanir á raforku til orkukræfs iðnaðar.“
Stjórnvöld þurfi að endurskoða núverandi stefnu í málefnum orkukræfs iðnaðar á Íslandi „og setja Landsvirkjun eigendastefnu án tafar“ sem taki mið af framtíðarorkustefnu Íslands sem m.a. kveður á um stuðning við byggðarstefnu, atvinnustefnu og samspil við lykilatvinnugreinar .