Teknir inn í vísindaakademíuna

Jón Atli Benediktsson og Magnús Tumi Guðmundsson.
Jón Atli Benediktsson og Magnús Tumi Guðmundsson.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, hafa verið kjörnir í Evrópsku vísindaakademíuna (Academia Europaea) fyrir framlag sitt til vísindarannsókna í Evrópu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Aðild að akademíunni eiga evrópskir vísindamenn á sviði raunvísinda og tækni, lífvísinda og læknisfræði, stærðfræði, hugvísinda og bókmennta, félags- og mannvísinda, hagfræði og lögfræði. Vísindaakademían veitir m.a. ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum ráðgjöf á sviði vísinda og fræða í Evrópu, hvetur til rannsóknasamstarfs þvert á landamæri og fræðigreinar með sérstaka áherslu á viðfangsefni sem tengjast Evrópu, stuðlar að framúrskarandi vísinda- og fræðastarfi og kennslu innan Evrópu og miðlar til almennings mikilvægi þekkingarleitar og vísindastarfs.

Akademían veitir árlega vísindamönnum, sem standa framarlega á sínu fræðasviði, inngöngu að undangenginni tilnefningu og kjöri innan ráðs Akademínunnar. Aðildarfélagar í Evrópsku akademíunni eru nú um fjögur þúsund, þar á meðal yfir 70 Nóbelsverðlaunahafar,“ segir í tilkynningu.

Jón Atli Benediktsson lauk lokaprófi í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands og meistara- og doktorprófi í rafmagnsverkfræði frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum. Hann hefur starfað sem prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands frá árinu 1996. Í rannsóknum hefur Jón Atli helgað sig fjarkönnun og þróun aðferða við úrvinnslu fjarkönnunargagna eða stafrænna myndgagna sem fengin eru með skynjurum frá flugvélum, drónum eða gervitunglum. Jón Atli er í hópi fremstu vísindamanna heims á sviði fjarkönnunar og er höfundur einnar fræðibókar og yfir 400 ritrýndra fræðigreina á sviði rafmagns- og tölvuverkfræði. Hann hefur jafnframt verið mjög virkur í nýsköpun og komið að  stofnun sprotafyrirtækja með vísindamönnum innan Háskólans auk þess sem hann hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir vísindastörf sín. Jón Atli hefur verið rektor Háskóla Íslands frá árinu 2015.

Magnús Tumi Guðmundsson lauk BS-prófi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands og doktorsprófi í sömu grein frá University College London. Hann hefur gegnt starfi prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands frá árinu 2002.  Magnús Tumi er einn af helstu sérfræðingum heims á sviði eldgosa í jöklum, sem hafa auk jökulhlaupa, spengigosa og vöktunar eldfjalla á Íslandi verið helstu viðfangsefni rannsókna hans, m.a. í samstarfi við stofnanir eins og Veðurstofuna, Isavia, Landhelgisgæsluna og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fjölda erlendra samstarfsaðila. Þá hefur hann einnig unnið að rannsóknum á jarðhita og stýrir núna fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni um myndun Surtseyjar. Magnús Tumi hefur birt fjölmargar greinar um rannsóknir sínar í alþjóðlegum tímaritum og þá er hann í hópi þekktustu jarðvísindamanna landsins og er jafnan kallaður til af fjölmiðlum í tengslum við eldvirkni og tengd umbrot á Íslandi.

Þeir Jón Atli og Magnús Tumi verða formlega teknir inn í Evrópsku vísindaakademíuna á ársfundi hennar í október næstkomandi. Alls munu þá fimm fræðimenn við Háskóla Íslands hafa fengið inngöngu í akademíuna en áður höfðu þau Freysteinn Sigmundsson, vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskólans (2018), Ástráður Eysteinsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild (2012), og Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild (2012), fengið inngöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert