„Það er fullkomlega eðlilegt að fólki hafi skoðun á þessum áformum og komi á framfæri athugasemdum. Til þess er þetta ferli sem málið er í,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra.
Morgunblaðið greindi frá því í gær að mikillar óánægju gætti meðal landeigenda og sumarhúsaeigenda í Landsveit með stórfellda uppbyggingu ferðaþjónustu sem fyrirhuguð er á jörðinni Leyni. Yfir fimmtíu sóttu fund vegna málsins í fyrrakvöld þar sem rætt var hvaða möguleikar væru í stöðunni. Er bæði óánægja með umfang uppbyggingarinnar og gagnrýnt að ekkert samráð hafi verið haft við landeigendur.
Um þessar mundir er í kynningu skipulagslýsing þar sem fram kemur að eigendur Leynis 2 og 3 hafi fengið heimild sveitarstjórnar til að nýta jarðirnar undir ferðaþjónustu. Tjaldsvæði verði eflt og mögulega stækkað, heilsárstjöld og hjólhýsi verði til leigu. Þá verði reist gistiheimili eða gestahús fyrir allt að 240 gesti auk fjögurra íbúðarhúsa sem hægt verði að leigja út, að því er fram kemur í áframhaldandi umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.