Öryggissveitir komnar til Íslands

Herþyrlurnar tvær á flugi yfir Skeifunni síðdegis.
Herþyrlurnar tvær á flugi yfir Skeifunni síðdegis. Ljósmynd/Friðrik G. Kristjánsson

Hingað til lands eru komnir fulltrúar frá bandarísku leyniþjónustustofnuninni, US Secret Service, sem gætir öryggis forseta og varaforseta Bandaríkjanna. Samkvæmt öruggum heimildum mbl.is er um að ræða nokkra tugi einstaklinga.

Koma US Secret Service tengist fyrirhugaðri heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands. Er varaforsetinn væntanlegur miðvikudaginn 4. september næstkomandi. Hefur Pence meðal annars þekkst boð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, um hádegisverðarfund á Bessastöðum. Ekki er vitað hvort hann muni einnig eiga fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Heimildir mbl.is herma að fulltrúar US Secret Service vinni nú meðal annars náið með ríkislögreglustjóra, utanríkisráðuneytinu og sendiráði Bandaríkjanna. Er þetta sagt liður í undirbúningi fyrir komu varaforsetans. Litlar upplýsingar liggja fyrir um þann viðbúnað sem búast má við þegar Pence kemur til Íslands, en hann verður að öllum líkindum mikill ef marka má þann viðbúnað sem viðhafður er í heimsóknum hans annars staðar. 

Þá fékk mbl.is einnig spurnir af því að sést hefði til tveggja bandarískra herþyrlna fyrr í dag. Eru þær sagðar hafa flogið lágflug yfir Reykjavík og ekki leið á löngu þar til vakin var athygli á ferð þyrlnanna í Facebook-hópnum Flugnördar. Talið er líklegt að þyrlurnar tvær tengist einnig fyrirhugaðri heimsókn varaforsetans. 

Fulltrúar US Secret Service vinna nú með ríkislögreglustjóra.
Fulltrúar US Secret Service vinna nú með ríkislögreglustjóra. Árni Sæberg

Greint var frá því á mbl.is og í Morgunblaðinu í dag að í gær hefði bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni Northrop B-2 Spirit lent á Keflavíkurflugvelli. Vélar þessar eru upphaflega hannaðar til að bera kjarnavopn. Þá hefur einnig bandarísk flugsveit sinnt loftrýmisgæslu undanfarið á Íslandi með F-16 orrustuþotum. Það má því segja að hernaðarumsvif Bandaríkjamanna hafi aukist nokkuð hér við land undanfarnar vikur og mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka