Innanlandsflug sem ein af mikilvægustu almenningssamgöngum á Íslandi býr ekki við sama rekstrarumhverfi og aðrar almenningssamgöngur á borð við ferjur og strætisvagna.
Þetta kom fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun, að sögn Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem situr í nefndinni og óskaði eftir fundinum.
Fulltrúar frá Erni og Air Iceland Connect ásamt fólki frá Isavia sat fundinn. Fram kom að erfitt sé fyrir rekstraraðila að halda uppi stöðugleika í greininni í miklu samkeppnisumhverfi, bæði hvað varðar fjölda flugferða og verð.
„Það var svolítið niðurstaðan á fundinum. Það þarf að búa innanlandsfluginu það umhverfi að það geti sinnt almenningssamgöngum en sé ekki faramáti í samkeppni við aðrar niðurgreiddar almenningssamgöngur.”
Hann bætir við að flugið sé eini raunhæfi kosturinn varðandi öflugar almenningssamgöngur fyrir þá sem búa langt burtu. Það sé bæði öruggast og best fyrir umhverfið. Bendir hann á að margoft hafi verið sýnt fram á að umhverfisvænna sé að fara með flugi heldur en að einn til tveir fari saman í hverjum bíl.
Hver eru næstu skref í málinu?
„Að fylgja eftir stefnu Alþingis í samgönguáætlun um að efla innanlandsflug með því að gera það að raunhæfum almenningssamgöngukosti.”