Reynisfjall allt mjög óstöðugt

Austurhluti fjörunnar er lokaður eftir að stór skriða féll. Nú …
Austurhluti fjörunnar er lokaður eftir að stór skriða féll. Nú er unnið að því að loka austurhlutanum varanlega. mbl.is/Hallur Már

Meira máli skiptir að stjórna aðgengi að Reynisfjöru en að fjölga mælum í Reynisfjalli, að sögn forstjóra Veðurstofunnar. Í síðustu viku féll stór skriða í Reynisfjalli sem er fyrir ofan fjölsóttan ferðamannastað, Reynisfjöru. Þá höfuðkúpubrotnaði ferðamaður.

Í gær ákvað umhverfisráðherra að veita Veðurstofunni tólf til fimmtán milljónir á ári fyrir einu stöðugildi vegna skriðuvöktunar.

„Reynisfjall er náttúrulega allt mjög óstöðugt eins og menn þekkja og þarna hrynur stöðugt úr og er náttúrulega sjávarrof fyrst og fremst þannig að það er í eðli sínu mjög hættulegur staður,“ segir Árni Snorrason forstjóri Veðurstofunnar spurður um hvort fjölga eigi mælum í Reynisfjalli.

„Ég held að það sem skipti mestu máli þar sé að stýra aðgengi að svæðinu þannig að menn séu ekki settir í óþarfa áhættu.“

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Þor­björg­ Gísla­dótt­ir, sveit­ar­stjóri Mýr­dals­hrepps, að austasta hluta fjörunnar, þar sem skriðan féll, verði lokað varanlega. 

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.
Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Aukin skriðuföll tengjast loftslagsbreytingum

Í áætlun Veðurstofunnar var reiknað með 30 milljónum á ári til þriggja ára og því er fjármagnið mun minna en Veðurstofan hafði reiknað með. Um það hvort ekki þurfi meira til segir Árni:

„Við höfum verið með mjög öflugan ofanflóðahóp hér mjög lengi en þarna hafa verið nýjar áskoranir. Þessi viðbót svarar heilmiklu af okkar óskum þannig að við getum brugðist við þessum nýju áskorunum. Það er fagnaðarefni að menn séu tilbúnir að setja opinbert fé í að mæta þessum nýju áskorunum sem margar hverjar tengjast loftslagsmálum og þessum mikla ferðamannafjölda sem fer inn á svæði sem áður voru í raun ekki heimsótt nema af mjög fáum.“

Aukin hætta á skriðuföllum

Árni segir að hættan á auknum skriðuföllum sé meiri en áður. „Við teljum að aukning á skriðuföllum sé líkleg í framtíðinni. Hrun vegna breytinga á sífrera getur til dæmis valdið aukinni skriðutíðni. Eins erum við að vakta Svínafellsheiði þar sem jökull er að hopa og þar höfum við til dæmis sett upp mælakerfi og erum að bæta í það í sumar.“

Fjármagnið sem Veðurstofan fær fer fyrst og fremst í fjármögnun á nýju stöðugildi. „Þetta er ekki bara vöktun heldur líka kerfisbundin greining á skriðuhættu á landinu, þar sem við notum fyrst og fremst bæði jarðeðlisfræðilegar aðferðir en líka greiningu með gervihnattagögnum. Við höfum verið að þjálfa okkar fólk í slíku, meðal annars í mjög náinni samvinnu við Norðmenn,“ segir Árni.

Svínafellsheiði í gjörgæslu

Spurður hvort ekki þyrfti líka að fjölga mælum segir Árni: „Við munum gera greiningu á aðstæðum kerfisbundið á landinu og einblína sérstaklega á staði þar sem fólk annað hvort býr eða kemur mikið.“

Matið mun leiða í ljós hvort vakta þurfi einhver svæði sérstaklega. „Á grundvelli þess mats munum við væntanlega sjá einhverja staði sem myndu kalla á frekari vöktun með mælitækjum. Þetta er verklag sem Norðmenn hafa notað. Það eru ákveðnir staðir sem þeir telja hættulega og suma þeirra eru þeir að vakta í gjörgæslu. Það má segja að við séum að vakta Svínafellsheiði í gjörgæslu,“ segir Árni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert