Fram kemur á fréttavef breska viðskiptablaðsins Financial News að áform félagsins Atlantic Superconnection um að leggja sæstreng fyrir raforku frá Íslandi til Bretlands hafi þegar uppfyllt kröfur sem gerðar séu í þeim efnum samkvæmt íslenskum lögum. Fram kemur enn fremur að það sem einkum vanti sé grænt ljós frá breskum stjórnvöldum.
Fjárfestirinn Edmund Truell, sem stendur að baki Atlantic Superconnection, er sagður í umfjöllun Financial News hafa verið að þrýsta á ráðamenn í Bretlandi í þessum efnum og bíði nú óþreyjufullur eftir svari frá þeim.
Það sem vanti einkum sé að breska viðskiptaráðuneytið skilgreini Atlantic Superconnestion sem erlendan raforkuframleiðanda svo félagið geti selt raforku í Bretlandi á niðurgreiddu verði.
Verkefnið er sagt hafa tafist þar sem fyrrverandi viðskipta- og orkumálaráðherra Bretlands, Greg Clark, hafi dregið lappirnar við afgreiðslu málsins.
Hins vegar gæti nú aukinnar bjartsýni í herbúðum Truells eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Bretlandi undir forsæti Boris Johnson. Truell er gamall samstarfsmaður Johnsons og var ráðgjafi hans varðandi eftirlaunamál þegar Johnson var borgarstjóri London.
Enn fremur segir í umfjöllun Financial News að náinn samstarfsmaður Truells hjá fjárfestingasjóði hans Disruptive Capital, sem stendur að baki Atlantic Superconnection, Chrissie Boyle, hafi hætt störfum fyrir sjóðinn til þess að vinna fyrir Johnson í aðdraganda þess að hann var kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins.
Þá studdi Truell Andreu Leadsom, núverandi viðskipta- og orkumálaráðherra, þegar hún sóttist eftir því að verða leiðtogi breska Íhaldsflokksins sumarið 2016. Heimildir fréttavefsins herma að Truell geri sér vonir að stuðningur hans komi sér nú vel.
Fram kom í umfjöllun á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í janúar 2017 að Leadsom hafi, sem undirráðherra orkumála 2015-2016, verið mjög áhugasöm um hugmyndir um sæstreng til Íslands og velt upp þeirri spurningu hvort ekki mætti leggja fjóra sæstrengi til landsins til þess að leysa í eitt skipti fyrir öll orkuvanda Breta.
Haft er eftir Truell að áfram sé unnið að Atlantic Superconnection-verkefninu þó sumarleyfi í sumar hafi þýtt að lítið hafi gerst hjá breska viðskiptaráðuneytinu undanfarnar vikur, en umfjöllun Financial News var birt um miðjan þennan mánuð.
Enn fremur er haft eftir Truell að hann og aðrir aðstandendur Atlantic Superconnection séu sem fyrr þeirrar skoðunar að verkefnið muni verða gríðarlega hagstætt fyrir Bretland með því að flytja umhverfisvæna orku til landsins.
Fram kemur meðal annars á vef Atlantic Superconnection að forsvarsmenn verkefnisins hafi byggt upp og viðhaldið sterkum tengslum við íslenska ráðherra í gegnum tíð ríkisstjórnarskipti á Íslandi. Þverpólitískur stuðningur við verkefnið fari vaxandi.
Fréttavefur breska dagblaðsins Daily Telegraph hafði eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sumarið 2018 að þó enn væru margar hindranir sem komast þyrfti yfir, þar á meðal varðandi umhverfis- og skipulagsmál, á þeirri leið að hægt yrði að samþykkja lagningu slíks sæstrengs myndi það auðvelda mat á fýsileika þess ef bresk stjórnvöld gætu gefið skýr svör um fast orkuverð fyrir líftíma slíks strengs.
Fyrr í þessum mánuði fjallaði mbl.is um að tvö íslensk almannatengslafyrirtæki, KOM og Aton sem nú heitir Aton.JL, hefðu sinnt störfum fyrir erlenda fjárfesta sem hefðu áform um að leggja sæstreng fyrir raforku á milli Íslands og Bretlands, en félögin tvö hafa meðal annars sérhæft sig í því að koma viðskiptavinum sínum í samband við íslenska ráðamenn.
Fram kom í frétt Times um málið í lok maí á þessu ári að gert sé ráð fyrir að fjárfestingin vegna sæstrengsins muni í heild hljóða upp á 2,5 milljarða punda eða sem nemur rúmum 377 milljörðum króna. Samkvæmt frétt Daily Telegraph síðasta sumar höfðu fjárfestar þá þegar varið um 10 milljónum punda, eða sem nemur um 1,5 milljarði króna, í undirbúning fyrir mögulegan sæstreng.