Áhrif af flutningi Björgunar í Álfsnesvík væru „samfélagslega jákvæð“ og heildaráhrif framkvæmdarinnar „óveruleg“ samkvæmt frummatsskýrslu um umhverfisáhrif á flutningunum sem nú er til kynningar á vef Skipulagsstofnunar.
Samkvæmt núverandi samkomulagi milli Björgunar og Faxaflóahafna á Björgun að vera búin að losa núverandi vinnusvæði sitt við Sævarhöfða ekki síðar en í lok maí á næsta ári.
Ólíklegt verður að telja að nýtt vinnslusvæði í Álfsnesi verði að fullu tilbúið fyrir þann tíma en samkvæmt frummatsskýrslunni er gert ráð fyrir að starfsemin rúmist á um það bil 7,5 hektara svæði sem verði að hluta á landfyllingu og að hluta á landi. Efnisþörf í landfyllingar er áætluð um 435.000 m3 og verður hún fenginn með skeringum á landi og dýpkunum, auk þess sem efni verður fengið frá athafnasvæði Sorpu í skiptum fyrir jarðveg frá framkvæmdasvæðinu.
Á svæðinu þarf jafnframt að vera viðlegukantur með allt að 130 metra löngu þili fyrir skip, pramma og önnur efnisflutningaskip, en miðað er við að þar geti lagst að skip sem eru meira en 1.700 brúttólestir. Þar til lokið verður vinnslu við varanlegan viðlegukant mun þeim sandi og malarefni sem skip Björgunar sækja í námur á sjávarbotni verða landað um rör úr skipum sem liggja við akkeri utan við landfyllinguna.
Gert er ráð fyrir bráðabirgðavegtengingu að svæðinu að norðan með ströndinni frá Víðinesvegi, en sá vegur á að víkja þegar Sundabraut kemur til framkvæmda þar sem aðalskipulag gerir ráð fyrir henni sem framtíðartengingu við svæðið.
Þeir framkvæmdaþættir sem helst voru taldir skipta máli samkvæmt frummatinu eru gerð landfyllingar og athafnasvæðis á landi, bráðabirgðavegtengingin, gerð viðlegukants og dýpkun á Þerneyjarsundi fyrir siglingarennu og svo löndun jarðefna.
Samkvæmt frummatinu mun gerð landfyllingar og landmótun lóðar á landi hafa „bein neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif á landslag og ásýnd“. Þau áhrif eru hins vegar talin hafa „óverulegt vægi“ vegna þess hve lítið svæðið er og verndargildi þess lágt. Áhrifin af gerð bráðabirgðavegar á landslagið teljast hins vegar óveruleg, eru sögð taka til lítils afmarkaðs svæðis og framkvæmdin afturkræf. Áhrif dýpkunar og landfyllingar á laxfiska eru talin vera engin.
Áhrif framkvæmdarinnar á vistkerfi og búsvæði teljast einnig „bein, neikvæð, varanleg og óafturkræf“, en öll gróðurþekja verður tekin af lóð Björgunar og jarðvegurinn nýttur á urðunarsvæði Sorpu og svarðlag í jarðvegsmanir umhverfis lóð Björgunar. Vægi framkvæmdanna á vistkerfið telst hins vegar „óverulegt“ þar sem gróður á svæðinu teljist ekki fágætur.
Lagning bráðabirgðavegar er þó sögð munu skerða nærsvæði tjarnar við Álfsnesvík á 40 m kafla, en við tjörnina er fjölbreytt fuglalíf. Áhrifin eru þó talin óveruleg þar sem þau séu staðbundin og taki til lítils afmarkaðs svæðis.
Áhrif dýpkunar á strauma eru þá talin óveruleg eða engin. Landfylling engu að síður sögð geta leitt af sér aukið öldubrot á um 160 m kafla við strönd Þerneyjar. Vægi þeirra áhrifa er þó talið óverulegt þar sem þau séu ólíkleg til að valda rofi á grýttri fjörunni.
Landmótun lóðar á landi mun hafa bein „neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif“ á mógrafir í mýrinni Fornugröfum. Í frummatsskýrslunni eru þau þó metin óveruleg með tilliti til varðveislugildis mýrarinnar og bent á að bráðabirgðavegur að lóð Björgunar muni verja fiskibyrgi, sem metin voru í hættu fyrir rofi sjávar.
Minjastofnun hefur bent á að framkvæmdin hafi áhrif á þá minjaheild sem stofnunin kallar Þerneyjarsundskauphöfn og byggir á því að tengsl séu milli kauphafnarinnar í landi Sundakots og fiskibyrgjanna á holtinu, sem eru í rúmlega 500 metra fjarlægð.
Framkvæmdaaðilar telja „röskun á mýri með ummerkjum um mógrafir“ þó það hafi neikvæð áhrif á minjarnar hins vegar ekki teljast veruleg þar sem engar minjar séu á framkvæmdasvæðinu sem tengja megi beint við kauphöfnina. Bent er þá á að fornleifafræðingum beri ekki saman um hvort fiskibyrgin norðan Fornugrafa tengist kauphöfninni eða ekki. Þannig telji Borgarsögusafn það líklegt, en Kristján Eldjárn hafi í grein sinni í ársriti hins íslenzka fornleifafélags sagt ekkert samband þar á milli.
Engu að síður hafi verið brugðist við athugasemdunum og dregið úr áhrifum með því að afmarka framkvæmdasvæðið þannig að Sundakot og fiskibyrgi norðan Fornugrafa séu utan þess.
Engin náttúruverndarsvæði eru í Álfsnesi, né heldur friðlýst svæði eða jarðmyndanir sem njóta sérstakrar verndar. Þerney, sem er í næsta nágrenni við framkvæmdasvæðið, er þó á C-hluta náttúruminjaskrár og hverfisvernduð. Framkvæmdasvæðið verður vel sýnilegt frá austurhluta Þerneyjar, en í frummatsskýrslunni eru þau áhrif talin óveruleg.
Eins eru áhrif vegna foks og umferðar talin líkleg til að vera óveruleg. Hljóðmengun frá starfseminni verði vel innan marka. „Styttra er í Álfsnesvík af uppbyggingarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu en í námur á landi, sem annars þyrfti að sækja í. Áhrif eru bein, jákvæð og varanleg. Framkvæmdin er talsvert jákvæð fyrir uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu,“ segir þar jafnframt.
Gripið verði líka til ýmissa aðgerða til að lágmarka áhrif af framkvæmdum og rekstrinum á umhverfið. Þannig standi til að draga úr áhrifum á ásýnd og fok með landslagsmótun og jarðvegsmönum og eins verði svarðlag nýtt í yfirborð þeirra til að draga úr áhrifum á gróður. Friðhelgað svæði umhverfis minjar næst framkvæmdasvæðinu verði sömuleiðis afmarkað á framkvæmdatíma.
Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum er því sú að framkvæmdin muni hafa óveruleg eða engin áhrif á sjö af þeim átta umhverfisþáttum sem metnir voru. Heildaráhrif framkvæmdarinnar að teknu tilliti til mótvægisaðgerða verði því óveruleg, nema á samfélag sem teljist talsvert jákvæð.