Heildarlöggjöf Evrópusambandsins á sviði fjarskipta, sem nefnd er Kóðinn, verður lögð fram á alþingi í vor og stefnt að því að hún taki gildi í ársbyrjun 2021. Þetta kom fram í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra á kynningarfundi ráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar þangað sem mættur var hópur fólks úr fjarskiptaheiminum og aðrir áhugamenn um fjarskipti. Drög að frumvarpinu verða lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda í dag og hvatti ráðherra fundarmenn og aðra áhugasama til að kynna sér þau og gefa álit.
Reglugerð og tilsvarandi tilskipun eru hluti af áætlun Evrópusambandsins um sameiginlegan stafrænan markað, sem hrundið var úr vör árið 2016 að frumkvæði framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en hugmyndir um hann voru á meðal stefnumála Jean-Claudes Junckers, fráfarandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er hann tók við embætti.
Neytendur hafa þegar orðið varir við sum atriði áætlunarinnar, til að mynda reglur um farsímanotkun erlendis, og geta þeir nú notað símann sinn líkt og heima væri í öllum löndum Evrópska efnahagssvæðisins, með einhverjum takmörkunum þó.
Meðal þess sem kveðið er á um í Kóðanum eru markmið um að nethraði upp á 100 Mb/sek, hið minnsta, standi öllum Evrópubúum til boða, hvort heldur í þétt- eða dreifbýli, og að stórnotendum og því sem kallað er „félagslegir og hagrænir burðarstólpar“ (e. socio-economic drivers) standi til boða hraði upp á 1Gb/sekúndu, 1000 Mb. Sá hraði er þegar fyrir hendi á höfuðborgarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að uppbyggingin kosti Evrópusambandið og ríki þess um 515 milljarða evra, 70 þúsund milljarða íslenskra króna, fram til ársins 2025.