Rannveig Oddsdóttir lenti í þriðja sæti í sínum aldursflokki í ofurhlaupi í Mont Blanc, hæsta fjalli Alpanna, í gær. Hlaupið var 55 kílómetrar og í því 3.500 metra hækkun. Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Rannveigu fyrr í dag var hún á leið í fjallgöngu og átti því greinilega nóg eftir af orku.
Rannveig keppti í aldursflokki 40-49 ára ásamt rúmlega hundrað öðrum konum. Hún hljóp hlaupið á sjö klukkustundum, 33 mínútum og þrettán sekúndum. Af öllum konum var Rannveig tuttugasta og fjórða konan í mark. Hún bjóst ekki við svo góðum árangri.
„Ég var eitthvað búin að skoða úrslitin frá því í fyrra og reyna að áætla hvað ég yrði sirka lengi að þessu og sjá þá hvar ég væri í röðinni. Út frá því sýndist mér varla að ég ætti möguleika á að ná á pall svo það var óvænt ánægja,“ segir Rannveig.
Aðstæður voru góðar, að sögn Rannveigar, þótt hitinn hafi stundum verið mikill.
„Annars var þetta mikið inni í skógi þar sem var skjól frá sólinni en það var heitara en maður er vanur. Ég hef aldrei drukkið eins mikinn vökva í einu hlaupi. Maður fann alveg að maður þurfti að drekka svolítið meira en þegar maður er að hlaupa Laugaveginn og heima á Íslandi,“ segir Rannveig.
Þetta var lengsta hlaup Rannveigar til þessa og hefur hún aldrei hlaupið hlaup með svo mikilli hækkun. „Ég fór á heimsmeistaramótið í Portúgal núna í vor. Það var ekki alveg eins langt og ekki alveg eins margir hæðarmetrar en það sem var erfiðara í því hlaupi var að það var tæknilegra. Þar voru trjárætur og grjót á stígunum og hvergi hægt að stíga niður fæti án þess að snúa sig eða detta,“ segir Rannveig.
Rannveig er búin að vera á hlaupum í tuttugu ár. „En ég var lengi vel mest að hlaupa götuhlaup. Svo er ég búin að vera meira núna síðustu tvö ár að fara á fjöll, bæði að hlaupa og líka bara að ganga á fjöll.“
Um undirbúninginn fyrir slíka þrekraun segir Rannveig: „Í sumar er ég búin að taka svona fjallahlaupaæfingar þar sem ég er að hlaupa upp og skokka niður og fara langa túra inn á milli þar sem ég er kannski að fara upp í 35 kílómetra.“
Hækkunin sé þó aðalmálið. „Hún er náttúrlega 3.500 metrar svo maður er farinn að hugsa æfingarnar meira þannig að maður safni hæðarmetrum. Ég bý á Akureyri þannig að ég er búin að vera mikið á fjöllum þar, hlaupa upp í Hlíðarfjall og upp á Súlur og hlaupa líka á götunni innan bæjar og svona.“
Rannveig segir hlaupaleiðina stórfenglega. „Það var eiginlega hálfgerð synd að vera að hlaupa þetta og ná ekki að njóta þess sem bauðst en maður náði aðeins að njóta þess því maður fer náttúrlega ekkert mjög hratt upp og þá nær maður að líta aðeins í kringum sig.“
Skilyrðin voru góð. „Það sem var svo gott við aðstæður í gær var að maður sá svo vel í kringum sig. Ég þekki eina sem fór fyrir tveimur árum og þá var bara þoka og rigning allan tímann svo þá sá hún ekki neitt nema bara niður á stíginn en þetta var einmitt æðislegt umhverfi þarna, þetta er svona eins og að hlaupa bara inni í einhverju póstkortalandslagi,“ segir Rannveig.
55 kílómetra hlaup með 3.500 metra hækkun virðist þó ekki slá Rannveigu út af laginu. „Ég er bara býsna spræk, ég er komin hérna upp í fjöllin og við ætlum að fara í smá göngu. Þau eru hérna með mér systir mín og mágur og ég held að þau þurfi ekkert að hafa áhyggjur af því í dag að ég stingi þau af í brekkunum,“ segir Rannveig kímin.
„Það eru svona aðeins strengir og þreyta í mér en ég er ekkert mjög illa farin, ég hef einhvern tímann komið verr undan hlaupi.“
Hlaupið er hluti af Ultra-Trail du Mont-Blanc-hlaupum, UTMB, en í þeim er val um fleiri vegalengdir. Rannveig keppti í svokölluðu OCC-hlaupi en fleiri Íslendingar gerðu það, þau Eva Birgisdóttir, Bryndís Davíðsdóttir, Gunnar Fríðuson, Rannveig Oddsdóttir, Sara Dögg Pétursdóttir, Ingveldur Sæmundsdóttir og Ásgeir Torfason.
Íslendingar sem keppa í lengri vegalengdum UTMB-hlaupanna í Mont Blanc eru Þorbergur Ingi Jónsson, Elísabet Margeirsdóttir, Benoit Branger, Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir, Sigríður Þóroddsdóttir og Birgir Vigfússon.