Vill bæta lífeyrissjóðskerfið

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þótt gallar séu á lífeyrissjóðskerfinu er ekki þar með sagt að það sé rétt að varpa því fyrir róða í einni svipan og hverfa frá hugsjóninni um samtryggingu og sjóðasöfnun. Við eigum hins vegar að sammælast um nauðsynlegar betrumbætur á því,“ skrifar Drífa Snædal, forseti ASÍ, í pistli á vef sambandsins.

Drífa fjallar um að lífeyrissjóðakerfið sé ekki gallalaust en það hafi þó marga mikilvæga kosti. 

Þar ber helst að nefna að lífeyrissjóðakerfið byggist á hugmyndarfræði sem hefur veitt okkur mesta velsæld síðustu öldina, nefnilega samtryggingunni. Fólk greiðir í hlutfalli við tekjur inn í kerfið og nýtur eftirlauna og afkomutryggingar til æviloka ef það missir starfsorkuna. Sú trygging er óháð kyni, aldri, áhættu í starfi eða öðru sem hefur áhrif á heilsufar og lífslíkur,“ skrifar Drífa.

Hún segir að í of ríkum mæli sé talað um lífeyrissjóðina eins og hverja aðra fjármálastofnun, sem sé rangt. 

Samið er um lífeyrisréttindi í kjarasamningum og það eru samningar á milli launafólks og atvinnurekenda sem svo ráða uppbyggingu sjóðanna. Sérstaða lífeyrissjóða á líka að endurspeglast í launastefnu þeirra. Fjármálaeftirlitið gerir sig til dæmis ítrekað sekt um að líta á lífeyrissjóðina sem hvern annan banka án þess að virða hið félagslega hlutverk og uppbyggingu þeirra,“ bendir Drífa á.

Nauðsynlegt sé að hverfa frá miklum skerðingum á almannatryggingum vegna útgreiðslu úr lífeyrissjóðum. Fólk verði að hafa viðunandi afkomu og hag af því að safna í sjóðina, annars sé kerfið tilgangslaust.

Lífeyrissjóðirnir eiga einnig að vera fremstir í flokki gagnsærra, samfélagslega meðvitaðra fjárfestinga til að ávaxta pund sjóðsfélaga. Ég vil til dæmis að sjóðirnir komi miklu sterkar inn í fjármögnun á góðu húsnæði á eðlilegum kjörum og verði því hluti af lausn þeirra vandamála sem launafólk stendur frammi fyrir hverju sinni. Sjóðunum á að beita til að efla hag okkar í gegnum fjárfestingar en án þess að lykilhlutverk þeirra glatist; að standa undir framfærslu okkar á efri árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert