Vonast eftir stuðningi við sæstreng

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Forsvarsmenn sæstrengsverkefnisins Atlantic SuperConnection vonast til þess að skömmu eftir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu, sem fyrirhugað er að gerist 31. október, geti hafist virkt samtal á milli þeirra og breskra stjórnvalda um formlegan stuðning við verkefnið.

Þetta kemur meðal annars fram í svari talsmanns Atlantic SuperConnection við fyrirspurn frá mbl.is, en forsvarsmaður verkefnisins er breski fjárfestirinn Edmund Truell.

Fulltrúar Atlantic SuperConnection hafa átt fjölda funda með hagsmunaaðilum hér á landi að sögn talsmannsins. Meðal annars með ráðherrum fjögurra ráðuneyta, fulltrúum flestra stjórnmálaflokka og umhverfisverndarsamtökum. Um kynningarfundi hefur verið að ræða að frumkvæði fulltrúa verkefnisins og án skuldbindinga af hálfu stjórnvalda.

Formlegar samningaviðræður um formlegan stuðning ríkisstjórna bæði Íslands og Bretlands eru að sögn talsmannsins á meðal þess sem vantar til þess að þróa verkefnið áfram. Frá því að gefið væri grænt ljós á verkefnið, samningar undirritaðir og umhverfismat lægi fyrir segir hann að það gæti tekið um sjö ár þar til rafmagn yrði flutt á milli landanna.

Bandaríski fjárfestirinn Edmund Truell hefur áhuga á að leggja sæstreng …
Bandaríski fjárfestirinn Edmund Truell hefur áhuga á að leggja sæstreng fyrir raforku á milli Íslands og Bretlands.

Hér fyrir neðan má lesa viðtalið í heild:

Hvar er verkefnið varðandi fyrirhugaðan raforkusæstreng á milli Íslands og Bretlands statt eins og sakir standa?

„Atlantic Superconnection er enn áhugasamt um verkefnið. Eins og sakir standa og undanfarna nokkra mánuði hefur stjórnmálaástandið í Bretlandi falið í sér áskoranir. En ef Bretland yfirgefur Evrópusambandið og orkumálaumgjörð sambandsins eftir níu vikur eins og gert er ráð fyrir þá vonum við að virkt samtal geti hafist skömmu eftir það varðandi það að fá formlegan stuðning frá ríkisstjórn Bretlands.”

Hversu háum fjárhæðum hefur þegar verið fjárfest í þessu verkefni? Hversu miklum fjármunum hefur verið safnað til þess að fjármagna það?

„Margar hliðar eru á verkefninu. Í heildina hefur rétt rúmlega 10 milljónum punda verið varið í fýsileika sæstrengsins og raflínuverksmiðju. Það síðarnefnda er ekki alfarið háð því fyrrnefnda þar sem eftirspurn eftir sæstrengjum fer stöðugt vaxandi.”

Eru þeir sem fara fyrir verkefninu enn í sambandi við íslenska ráðherra og/eða aðra íslenska stjórnmálamenn?

„Ekki á þessu ári, en á síðasta ári. Að okkar ósk hittum við ráðherra og embættismenn frá fjórum ráðuneytum snemma árs 2018 til þess að upplýsa þá um hugmyndir Atlantic Superconnection og verkefnið. Þessir fundir, líkt og átt hefur um alla aðra, eru án allra skuldbindinga af hálfu íslenskra stjórnvalda og alfarið skipulagðir fyrir kurteisissakir af okkar hálfu til þess að upplýsa íslensku ríkisstjórnina um það hvernig fýsileiki verkefnisins sér við Atlantic Superconnection og möguleikinn á því og hvernig hægt sé að þróa það áfram. Fundirnir árið 2018 voru fyrst og fremst haldnir til þess að kynna hugmyndina um einpóla streng sem er umtalsvert minni en tvípólastrengurinn sem gert var kostnaðarmat á árið 2016. Til upplýsingar getum við bent á Morgunblaðið sem birti fréttaumfjöllun um þessa útgáfu af sæstrengnum 14. Júní 2018. Við þetta getum bætt því við að undanfarin tvö til þrjú ár hefur Atlantic Superconnection fundað með fjölda hagsmunaaðila á Íslandi, í orkugeiranum, þingmönnum frá nær öllum stjórnmálaflokkunum, fulltrúum stjórnvalda, umhverfissamtökum svo fáeinir séu nefndir. Allir þessir fundir hafa verið haldnir í sama tilgangi, til að kynna hugmyndina um sæstrenginn og kosti hennar fyrir íslenskt samfélag.“

Hvað vantar til þess að hægt sé að hrinda verkefninu í framkvæmd?

„Við erum sannfærð um fýsileika verkefnisins og að það verði mjög hagstætt fyrir bæði löndin. Hafa verður í huga að gert er ráð fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið innan níu vikna og þá, að öllum líkindum, regluverk sambandsins um orkumál. En formlegar samningaviðræður um formlegar stuðning beggja ríkisstjórna eru á meðal þess sem enn vantar til þess að þróa verkefnið áfram.“

Ef grænt ljós yrði veitt á morgun, hversu langan tíma myndi taka að hrinda verkefninu í framkvæmd?

„Það er erfitt að segja þar sem þörf er á umtalsverðum fjárfestingum í íslenska dreifikerfinu til þess að flytja raforku þangað sem sæstrengurinn kæmi að landi. Þessi kostnaður myndi að sjálfsögðu ekki aðeins falla á íslenska dreifikerfið, Landsnet, heldur yrði honum deilt með sæstrengnum. En væri allt klárt og kvitt á morgun, samningar undirritaðir og umhverfismat framkvæmt myndu um það bil sjö ár líða þar til raforka gæti flætt frá Íslandi til Englands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert