Þorbergur Ingi Jónsson er komin í mark eftir rúmlega 170 kílómetra ofurhlaup í hlíðum Mont Blanc, hæsta fjalls Alpanna. Hækkunin í hlaupinu er um 10 kílómetrar.
Þorbergur hljóp á 24 klukkustundum, 59 mínútum og 22 sekúndum og bætti sig því um klukkustund í hlaupinu en hann hljóp einnig í fyrra og þá á tæpum 26 klukkustundum. Hann lenti í 26. sæti í karlaflokki og 18. sæti í sínum aldursflokki.
Elísabet Margeirsdóttir ofurhlaupari tekur þátt í sama hlaupi og Þorbergur og er enn á hlaupum. Hún er væntanleg í mark í kvöld.
Alls eru Mont Blanc-ofurhlaupin fjögur en hlaupið sem Þorbergur og Elísabet lögðu í er það lengsta og erfiðasta af þeim fjórum. Fleiri Íslendingar tóku þátt í styttri ofurhlaupum, þar á meðal Rannveig Oddsdóttir, sem hreppti brons í sínum aldursflokki.
Fréttin hefur verið uppfærð.