Pence fundar með Guðlaugi Þór í Höfða

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

„Samkvæmt upplýsingum okkar eru áform óbreytt hvað varðar heimsóknina,“ segir María Mjöll Jónsdóttir, deildarstjóri upplýsingadeildar utanríkisráðuneytisins.

Undirbúningur fyrir heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til Íslands í næstu viku stendur nú yfir. Ferðaplön hans hafa breyst eftir að hann þurfti að hlaupa í skarðið fyrir Donald Trump í heimsókn til Póllands um helgina en María kveðst ekki hafa fengið upplýsingar um að það breytti nokkru um Íslandsheimsóknina.

Varaforsetinn er væntanlegur hingað á miðvikudag. Ekkert fæst uppgefið um dagskrá heimsóknarinnar annað en það að hann muni sækja málþing um viðskipti milli ríkjanna tveggja. Það efnahagssamráð er afrakstur fundahalda Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrr á þessu ári.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins mun Pence auk þess funda með Guðlaugi Þór í Höfða. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun einnig hitta varaforsetann við það tækifæri. Áður hefur blaðið greint frá því að Pence hafi þekkst boð um að snæða hádegisverð með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, á Bessastöðum. Heimildir blaðsins herma að Pence lendi hér að morgni miðvikudags og haldi af landi brott síðdegis. Þar með verður ekkert af fundi hans og Katrínar Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem verður þann dag á norrænu verkalýðsþingi í Málmey.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verða hátt í 300 manns í fylgdarliði varaforsetans og verður mikil öryggisgæsla vegna heimsóknarinnar. Tugir vopnaðra fulltrúa frá öryggisstofnuninni US Secret Service munu fylgja Pence á ferðum hans hér. Öll sérsveit Ríkislögreglustjóra sinnir öryggisgæslu og fulltrúar úr bæði sprengjusveit og flugdeild Landhelgisgæslunnar verða til taks. Þá eru sérútbúnar sjúkraþyrlur, af gerðinni Sikorsky UH-60, til taks í Keflavík.

Búist má við því að sérútbúin ökutæki sem varaforsetinn ferðast í verði flutt til landsins með herflutningavélum. Bandaríkjamenn hafa farið fram á götulokanir í Reykjavík meðan á ferðum Pence stendur en samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ekki ljóst hvort af þeim verður.

Vilja sprengjuleitarhunda

Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að bandarískar öryggissveitir vilji flytja sérþjálfaða sprengjuleitarhunda til landsins. Er þetta til marks um hve mikil öryggisgæsla verður.

Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir staðfestir í samtali við Morgunblaðið að fyrirspurnir þessa efnis hafi borist til Matvælastofnunar. „Það hafa ekki komið nein formleg erindi en fyrirspurnir frá landbúnaðar- og utanríkisráðuneytinu.“

Sigurborg segir að innflutningur á hundum sé bannaður en Matvælastofnun geti leyft innflutning að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eitt af því er að hundar fari í fjögurra vikna einangrun í Höfnum eða á Suðurlandi. „Það var ekki sótt um undanþágu í þessu tilviki. Ég held að menn hafi bara verið að kanna hvort skilningur þeirra væri ekki réttur,“ segir Sigurborg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert