„Það er mikilvægt að við höfum loftslagsgleraugun alltaf á lofti og fléttum inn í alla okkar stefnumótun.“ Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri-grænna, í samtali við mbl.is, en hún er stödd á flokksráðsfundi VG í Öræfum. Ályktun þess efnis að öll stefnumótun flokksins skuli taka mið af loftslagsvánni og ákvarðanir teknar með hliðsjón af umhverfisáhrifum var samþykkt á fundinum.
Hann hófst í gær á glærukynningu Katrínar, en nú er fundarstarfi lokið, ályktun útgefin og forsætisráðherra á leið í göngu.
Varla telst til tíðinda að Vinstri-græn álykti um loftslagsvána, en Katrín segir aðspurð að það séu nýmæli að hugað verði að loftslagsmálum við stefnumörkun á öllum sviðum. Slíkt hafi gefið góða raun í baráttunni fyrir kynjajafnrétti þar sem hlutur kynjanna er víða hafður bak við eyrað hvert sem umræðuefnið er.
Í stjórnarsáttmála segir að unnið skuli að því að „gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðanna“. Niðurgreiðsla innanlandsflugs var á stefnuskrá Framsóknarflokksins fyrir kosningar og komust þær hugmyndir aftur til umræðu í vikunni að frumkvæði þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Spurð hvernig þau áform fari saman við loftslagsstefnuna segir Katrín að mikilvægt sé að horfa á heildarkolefnisspor samgangna við gerð samgönguáætlunar og má skilja sem svo að draga þurfi úr losun annars staðar.
Ekki er hlaupið að því að reikna út kolefnisspor samgangna frekar en annarra athafna ætli menn að rekja spor allra aðfanga. Þá bendir Katrín á að taka þurfi með í reikninginn fótspor annarra valkosta, svo sem að keyra einn í bíl landshluta á milli.
Í ályktun flokksráðs var einnig lýst yfir andstöðu við aukna vígvæðingu á norðurslóðum, sem og aukin hernaðarumsvif á Suðurnesjum. Segir í ályktuninni að þau verði ekki slitin úr samhengi við aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin, sem VG hafi staðið gegn frá upphafi.
Katrín segir að þótt utanríkisstefna Íslands og stefna VG fari ekki saman er kemur að aðild að Atlantshafsbandalaginu séu þær samróma um að norðurslóðir eigi að vera svokallað lágspennusvæði þar sem lítil hernaðarumsvif séu.
Flokksráð fagnar innleiðingu þriggja þrepa skattkerfis, en til stendur að bæta við nýju lágtekjuþrepi upp á 32,94%, fjórum prósentustigum lægra en lægra þrep núgildandi kerfis. Verði það til þess að auka jöfnuð í samfélaginu.
Þá sé það ánægjuefni að til standi á ný að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í eitt ár, en ákvörðun um það var fyrst tekin í tíð ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri-grænna en síðar fallið frá áformunum er ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók við völdum.