Mál einhverfs sex ára drengs, sem gleymdist í rútu í um þrjár klukkustundir á fimmtudag, er til skoðunar hjá lögreglu. Drengurinn var inni í læstri rútunni þegar hann gleymdist þar sem rútan flutti nemendur úr Klettaskóla yfir í frístundaheimilið Guluhlíð.
Vísir greindi fyrst frá málinu.
Fram kom í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld að lögregla kannaði málið.
Þar kom enn fremur fram að starfsfólki hefði átt að vera ljóst að drengurinn væri týndur.
Mikolaj Czerwinka var hvergi að finna þegar móðir hans ætlaði að sækja hann í Guluhlið á fimmtudag. Foreldrarnir hringdu á lögregluna en Mikolaj fannst eftir um hálftímaleit, læstur inni í rútu á bílaplani í Kópavogi.
Foreldrar hans sögðust hafa valið skólann og frístundaheimilið vegna þess að þau hefðu haldið að sonur þeirra væri í góðum höndum. Síðan hefði þetta gerst á fjórða skóladeginum en foreldrarnir vilja að lögregla kanni málið til að þetta komi aldrei fyrir aftur.