Átakið Á allra vörum hófst í dag en að þessu sinni nýtur „Eitt líf“ stuðningsins. Þar hefur verið unnið óhefðbundið forvarnarstarf í grunnskólum landsins, sem vakið hefur mikla athygli. Starfsemin hófst eftir lát ungs drengs, Einars Darra, í maí 2018, og byggist á því að fræða börn og ungmenni, foreldra þeirra og kennara um þá hættu sem fylgir neyslu vímuefna og lyfseðilsskyldra lyfja.
Í tilkynningu vegna átaksins segir að 39 börn og ungmenni hafi látist vegna ofneyslu lyfja á síðasta ári.
Minningarsjóður Einars Darra stendur fyrir þjóðarátakinu Ég á bara eitt líf en til átaksins var stofnað eftir andlát Einars Darra. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu aðeins 18 ára gamall en fljótlega eftir andlátið kom í ljós að hann hafði misnotað lyfseðilsskyld lyf síðustu vikur lífs síns.
Er þetta í níunda skipti sem átakinu „Á allra vörum“ er hrundið í framkvæmd en fyrir tveimur árum söfnuðust 78 milljónir króna í þjóðarátaki fyrir Kvennaathvarfið.
Í tilkynningunni segir að í könnun sem fyrirtækið Rannsókn og greining gerði nýlega hafi komið í ljós að 11% framhaldsskólanema, 18 ára og eldri, hefðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina.
Þá benti könnum sem Lyfjastofnun gerði í mars í fyrra til þess að 20% háskólanema notuðu örvandi lyf til að minnka svefnþörf og bæta námsárangur.
Markmið herferðarinnar sé að vekja þjóðina, tala tæpitungulaust um þessi mál og koma með tillögur að lausn á vandamálinu. Átakið var kynnt í Hallgrímskirkju síðdegis í dag.
Hægt er að styrkja átakið með því að kaupa Á allra vörum-varasett. Eins verður hægt að hringja í 900-númer til 30. september. Hægt er að styrkja með 2, 4, 6, 8 og 10 þúsund krónum. Númerin byrja öll á 90715 og enda síðan á upphæðinni, sbr. 02, 04, 06, 08 eða 10.