Siðanefnd Alþingis sæmd Tréfætinum

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, var ekki talinn brotlegur vegna …
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, var ekki talinn brotlegur vegna ummæla sinna um aksturgreiðslur Ásmundar Friðrikssonar. Það var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, flokkssystir hans, hins vegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Siðanefnd Alþingis var á aðalfundi Pírata í dag sæmd Tréfætinum, háðungarverðlaunum sem veitt eru árlega. Greint er frá verðlaununum á fésbókarsíðu Pírata, en þar segir að verðlaunin séu veitt þeim sem hafi „óvart og án þess að ætla sér það aukið við fylgi eða styrkt málstað“ flokksins. Kemur einnig fram að siðanefndin hafi átt í harðri samkeppni við Vigdísi Hauksdóttur og Eyþór Arnalds borgarfulltrúa.

Athygli vakti í vor er siðanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna hefði gerst brotleg við siðareglur með ummælum sínum „rök­studd­ur grun­ur um það að Ásmund­ur Friðriks­son hafi dregið sér fé“ eftir að upp komst að Ásmundur hafði þegið rausnarlegar akstursgreiðslur upp á 4,6 milljónir króna árið 2017 og virti ekki tilmæli þingsins um að nota bílaleigubíl þegar akstur færi umfram tiltekið viðmið. Reiknaði Félag íslenskra bifreiðaeigenda út að kostnaður Ásmundar af akstrinum næmi einungis réttum tveimur milljónum króna.

Ummæli Þórhildar Sunnu féllu í þættinum Silfrinu á RÚV þar sem rætt var um þá staðreynd að Ásmundur hefði, að eigin frumkvæði, endurgreitt reikninga sem hann hafði áður fengið greidda af þinginu vegna aksturs í eigin þágu þegar hann var við þáttagerð fyrir sjónvarpsstöðina ÍNN. Bar hann við að reikningurinn hefði verið sendur þinginu fyrir mistök.

Ásmundur Friðriksson ræðir við Pál Magnússon.
Ásmundur Friðriksson ræðir við Pál Magnússon. mbl.is/Hari

Enn rökstuddur grunur um fjárdrátt

Forsætisnefnd hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að ekkert gæfi til kynna að framferði Ásmundar hefði brotið í bága við siðareglur og sá ekki ástæðu til að senda málið til siðanefndar. Forsætisnefnd var einmitt önnur í kosningunni um Tréfótinn og munaði einungis einu atkvæði að hún hreppti hnossið.

Í samtali við mbl.is segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, að hann hafi sjálfur greitt forsætisnefnd sitt atkvæði. „Það er enn rökstuddur grunur um að Ásmundur hafi dregið sér fé,“ segir hann blaðamanni og tekur ekki undir er blaðamaður viðrar áhyggjur sínar af að ummælin kunni að koma honum illa verði þau höfð eftir honum. „Það má alveg hafa það eftir mér. Það eru gögn sem styðja þann grun að þingmenn hafi skrifað á sig akstur þegar þeir eru ekki að sinna þingstörfum heldur á ferðinni sem frambjóðendur,“ segir Björn Leví og rifjar upp ferð Bjarna Benediktssonar til Grundarfjarðar í aðdraganda þingkosninga þar sem hann hugðist sækja fund sjálfstæðismanna. Hafi Bjarni einnig boðað til opins fundar með ráðherra í bænum, að sögn Björns Levís til að réttlæta það að hann gæti ferðast þangað á ráðherrabíl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka