„Við erum ánægð með það að búið sé að klára málið og afgreiða,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, um þriðja orkupakka Evrópusambandsins sem samþykktur var á Alþingi fyrir hádegi í dag.
„Mér hins vegar hugnast ekkert sérstaklega að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hafi gefið eftir að hluta til dagskrárvaldið yfir til Miðflokksins, bæði í vor, allt sumar og núna í haust. Mér finnst enginn bragur á því.“
Þorgerður Katrín segir málið mjög vel upplýst. „Það er búið að svara öllum eðlilegum efasemdum mjög gaumgæfilega.
Málið fer ekki gegn stjórnarskrá, það snertir ekki orkuauðlindir okkar, það snertir ekki sæstreng, heldur miklu frekar styrkir það íslenska stjórnsýslu og íslenskar stofnanir, en síðast en ekki síst okkur Íslendinga sem sjálfstæða þjóð sem tekur ákvörðun um að starfa með öðrum fullvalda þjóðum.“