Katrín fundar með Pence

Katrín Jakobsdóttir og Mike Pence.
Katrín Jakobsdóttir og Mike Pence. Samsett mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, munu hittast á fundi í tengslum við heimsókn hans til Íslands.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Fundurinn mun eiga sér stað í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 4. september þegar forsætisráðherra kemur til landsins af fundum í Svíþjóð og Danmörku.

Varaforsetinn er væntanlegur hingað til lands á miðvikudaginn. Pence hefur meðal annars þekkst boð Guðna Th. Jó­hann­es­son­ar, for­seta Íslands, um há­deg­is­verðar­fund á Bessa­stöðum. Auk þess mun hann funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í Höfða.

Talið var að Katrín og Pence myndu ekki hittast þar sem forsætisráðherrann flytur aðalræðu á þingi Norræna verkalýðssambandsins í Svíþjóð. Nú er ljóst að þau hittast þegar hún kemur til landsins og hann yfirgefur það.

Katrín sagði í Silfrinu í gær að hún hefði ekkert á móti Pence þótt hún væri vissu­lega ekki sam­mála stjórn­mála­skoðunum hans. 

„Ég hef aldrei nálg­ast alþjóðleg sam­skipti þannig að maður ætti bara að tala við þá sem eru manni sam­mála enda myndi ég lík­lega ekki tala við marga þá,“ sagði Katrín meðal annars.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert