Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, munu hittast á fundi í tengslum við heimsókn hans til Íslands.
Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.
Fundurinn mun eiga sér stað í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli að kvöldi 4. september þegar forsætisráðherra kemur til landsins af fundum í Svíþjóð og Danmörku.
Varaforsetinn er væntanlegur hingað til lands á miðvikudaginn. Pence hefur meðal annars þekkst boð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, um hádegisverðarfund á Bessastöðum. Auk þess mun hann funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í Höfða.
Talið var að Katrín og Pence myndu ekki hittast þar sem forsætisráðherrann flytur aðalræðu á þingi Norræna verkalýðssambandsins í Svíþjóð. Nú er ljóst að þau hittast þegar hún kemur til landsins og hann yfirgefur það.
Katrín sagði í Silfrinu í gær að hún hefði ekkert á móti Pence þótt hún væri vissulega ekki sammála stjórnmálaskoðunum hans.
„Ég hef aldrei nálgast alþjóðleg samskipti þannig að maður ætti bara að tala við þá sem eru manni sammála enda myndi ég líklega ekki tala við marga þá,“ sagði Katrín meðal annars.