Fagnaðarfundir urðu í Húsdýragarðinum í Reykjavík í gær þegar Helge Snorri Seljeseth fiðluleikari hitti fyrir selinn Snorra.
Tilefni heimsóknarinnar er nafngift þess fyrrnefnda, en Helge Snorri var á sínum tíma skírður í höfuðið á selnum. Hann ákvað að gera sér ferð í Húsdýragarðinn til að leika nokkur lög fyrir nafna sinn og aðra íbúa í selalaug garðsins, þær Særúnu og Kobbu. Þar svömluðu líka um tveir ónefndir kópar sem fæddust í sumar. Snorri fagnar 31 árs afmæli í ár, en meðalaldur sela mun vera um 30 ár. Sjón hans er orðin döpur, en svo virtist sem heyrnin væri ágæt.
Helge Snorri stundar nám í djassfiðluleik við NTNU í Noregi og lék á rafmagnsfiðlu fyrir selina. Að hluta til lék hann þekkt lög en spann að öðru leyti tónlistina á staðnum. Þegar tónleikarnir hófust varð ljóst að mati blaðamanns að selunum líkaði tónlistin enda stungu þeir ótt og títt upp kollunum til að leggja við hlustir. Þess á milli gripu þeir fisk sem kastað var til þeirra meðan á tónleikunum stóð, að því er fram kemur í umfjöllun um uppákomu þessa í Morgunblaðinu í dag.