„Ég verð að viðurkenna að þetta eru vonbrigði. Alveg fram á síðasta dag átti ég von á því að einhverjir stuðningsmenn stjórnarflokkanna myndu taka mið af afstöðu almennings og ekki síst eigin stuðningsmanna, sem eru yfirgnæfandi á móti innleiðingu þessa orkupakka. Það gerðu þeir ekki, með einni undantekningu, svo þetta er niðurstaðan,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins í samtali við mbl.is eftir að þingstubbnum svokallaða lauk á Alþingi í hádeginu.
Þar var orkupakkinn svokallaði, sem tekist hefur verið á um í þinginu mánuðum saman, samþykktur. Sigmundur Davíð segir að nú byrji málið í raun fyrir alvöru, því að nú förum við smám saman að sjá áhrifin.
„Þau munu koma fram í innleiðingunni, í minnkandi valdi lýðræðislega kjörinna fulltrúa og þar með almennings yfir orkumálum á Íslandi,“ sagði Sigmundur og vísaði til reynslu Belgíu af innleiðingu þriðja orkupakkans.
Sigmundur endurtók þann punkt sem hann hefur haldið mjög á lofti í umræðunni síðustu daga um að Íslendingar ætli sér að ganga enn lengra en Belgar í innleiðingu orkupakkans, „innleiða pakkann að fullu“, sem myndi að sögn Sigmundar færa „landsreglaranum“ allt það vald sem Evrópusambandið ætlast til, „vald yfir framkvæmdum í orkumálum og vald yfir ákvörðunum um tengingu yfir landamæri“.
Aðspurður segir Sigmundur að hann hafi ekki endilega búist við því að orkupakkamálið myndi vinna Miðflokknum fylgi í skoðanakönnunum, eins og raunin hefur orðið. Samkvæmt könnunum Gallup hefur flokkurinn rúmlega tvöfaldað fylgi sitt frá því í lok síðasta árs, er flokkurinn mældist með 5,7% fylgi í kjölfar Klausturmálsins.
„Besta leiðin til að afla fylgis, eða það hefur að minnsta kosti verið mín aðferð þessi tíu ár sem ég hef verið í þessu, er að halda sínu striki og vera trúr sannfæringu sinni – berjast fyrir þeim málum sem maður raunverulega trúir á og gegn hinum sem maður raunverulega er á móti. Það eru iðulega og verða áfram sveiflur í skoðanakönnunum, en til langs tíma litið tel ég að kjósendur muni virða það við okkur að standa við það sem við segjum og muni treysta því, nógu margir,“ segir Sigmundur Davíð.
Hann segir jafnframt að hann hafi aldrei talið að þetta mál yrði til þess að það yrði boðað til stórra mótmæla eða aktívisma, enda sé reynslan sú að „borgaralega sinnað fólk, ef svo má segja“ sé yfirleitt ekki mikið að fara út á torg og mótmæla.