Vonaði allt til enda að fleiri myndu snúast

00:00
00:00

„Ég verð að viður­kenna að þetta eru von­brigði. Al­veg fram á síðasta dag átti ég von á því að ein­hverj­ir stuðnings­menn stjórn­ar­flokk­anna myndu taka mið af af­stöðu al­menn­ings og ekki síst eig­in stuðnings­manna, sem eru yf­ir­gnæf­andi á móti inn­leiðingu þessa orkupakka. Það gerðu þeir ekki, með einni und­an­tekn­ingu, svo þetta er niðurstaðan,“ sagði Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son formaður Miðflokks­ins í sam­tali við mbl.is eft­ir að þingstubbn­um svo­kallaða lauk á Alþingi í há­deg­inu.

Þar var orkupakk­inn svo­kallaði, sem tek­ist hef­ur verið á um í þing­inu mánuðum sam­an, samþykkt­ur. Sig­mund­ur Davíð seg­ir að nú byrji málið í raun fyr­ir al­vöru, því að nú för­um við smám sam­an að sjá áhrif­in.

„Þau munu koma fram í inn­leiðing­unni, í minnk­andi valdi lýðræðis­lega kjör­inna full­trúa og þar með al­menn­ings yfir orku­mál­um á Íslandi,“ sagði Sig­mund­ur og vísaði til reynslu Belg­íu af inn­leiðingu þriðja orkupakk­ans.

Sig­mund­ur end­ur­tók þann punkt sem hann hef­ur haldið mjög á lofti í umræðunni síðustu daga um að Íslend­ing­ar ætli sér að ganga enn lengra en Belg­ar í inn­leiðingu orkupakk­ans, „inn­leiða pakk­ann að fullu“, sem myndi að sögn Sig­mund­ar færa „lands­regl­ar­an­um“ allt það vald sem Evr­ópu­sam­bandið ætl­ast til, „vald yfir fram­kvæmd­um í orku­mál­um og vald yfir ákvörðunum um teng­ingu yfir landa­mæri“.

Aðspurður seg­ir Sig­mund­ur að hann hafi ekki endi­lega bú­ist við því að orkupakka­málið myndi vinna Miðflokkn­um fylgi í skoðana­könn­un­um, eins og raun­in hef­ur orðið. Sam­kvæmt könn­un­um Gallup hef­ur flokk­ur­inn rúm­lega tvö­faldað fylgi sitt frá því í lok síðasta árs, er flokk­ur­inn mæld­ist með 5,7% fylgi í kjöl­far Klaust­ur­máls­ins.

„Besta leiðin til að afla fylg­is, eða það hef­ur að minnsta kosti verið mín aðferð þessi tíu ár sem ég hef verið í þessu, er að halda sínu striki og vera trúr sann­fær­ingu sinni – berj­ast fyr­ir þeim mál­um sem maður raun­veru­lega trú­ir á og gegn hinum sem maður raun­veru­lega er á móti. Það eru iðulega og verða áfram sveifl­ur í skoðana­könn­un­um, en til langs tíma litið tel ég að kjós­end­ur muni virða það við okk­ur að standa við það sem við segj­um og muni treysta því, nógu marg­ir,“ seg­ir Sig­mund­ur Davíð.

Hann seg­ir jafn­framt að hann hafi aldrei talið að þetta mál yrði til þess að það yrði boðað til stórra mót­mæla eða aktív­isma, enda sé reynsl­an sú að „borg­ara­lega sinnað fólk, ef svo má segja“ sé yf­ir­leitt ekki mikið að fara út á torg og mót­mæla.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins gerir grein fyrir atkvæði sínu …
Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son formaður Miðflokks­ins ger­ir grein fyr­ir at­kvæði sínu á Alþingi í dag. mbl.is/Á​rni Sæ­berg
mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert