Hægði á undirskriftasöfnuninni eftir ummæli Bjarna

Undirskriftasöfnun til að knýja fram kosningu um þriðja orkupakkann innan …
Undirskriftasöfnun til að knýja fram kosningu um þriðja orkupakkann innan Sjálfstæðisflokksins var sjálfhætt eftir að Alþingi samþykkti orkupakkann. mbl.is/Arnþór

Undirskriftasöfnun til að knýja fram kosningu um þriðja orkupakkann innan Sjálfstæðisflokksins var sjálfhætt eftir að Alþingi samþykkti orkupakkann. Verulega hafði þó hægt á undirskrifasöfnuninni eftir að Bjarni Benediktsson formaður flokksins lýsti því yfir að kosning um slíkt myndi engu breyta.

Þetta segir Jón Kári Jónsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér í kvöld um undirskriftasöfnun sem efnt var til á vefnum xd5000.is.

Yfirlýsingin í heild sinni er birt hér að neðan:

„Þann 6. ágúst sl. hratt ég af stað undirskriftasöfnun meðal flokksbundinna sjálfstæðismanna og var ætlunin að safna 5.000 undirskriftum og knýja fram kosningu innan flokksins um þriðja orkupakkann. Í gær var pakkinn samþykktur á Alþingi og er undirskriftasöfnuninni því sjálfhætt. Söfnunin fór gríðarlega vel af stað, en þegar formaður flokksins, Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir við fjölmiðla fjórum dögum eftir að söfnunin hófst að viðhorf flokksmanna myndu engu breyta um stefnu þingflokksins í málinu þá hægði mjög á söfnuninni. Eftir stendur þó sú staðreynd að vel á þriðja þúsund undirskriftir söfnuðust og má til samanburðar geta þess að á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins mæta að jafnaði um 1.300-1.400 manns.“

Undir fréttatilkynninguna skrifa svo þeir Jón Kári Jónsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Hlíða- og Holtahverfi, Pjetur Stefánsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Bakka- og Stekkjahverfi, Erlendur Borgþórsson, formaður félags sjálfstæðismanna í Smáíbúða- og Fossvogshverfi,  Guðmundur Gunnar Þórðarson, formaður félags sjálfstæðismanna í Seljahverfi, Birgir Steingrímsson, varaformaður félags sjálfstæðismanna í Háaleitishverfi, og Hafsteinn Númason, formaður félags sjálfstæðismanna á Kjalarnesi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka