Blái herinn hefur hreinsað nærri 30 tonn af rusli úr fjörum landsins það sem af er ári með dyggri aðstoð sjálfboðaliða.
Á dagskrá er strandhreinsun með bandaríska sendiráðinu í Sandvík á Reykjanesi 13. september og er fólk beðið um að skrá þátttöku á reykjavikprotocol@state.gov. Einnig er unnið að undirbúningi strandhreinsunar friðlandsins í Akurey á Kollafirði á Alheimshreinsunardeginum 21. september.
Umhverfisstofnun (UST) hefur veitt Bláa hernum leyfi til að hreinsa friðlandið og eins hefur fengist leyfi frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt bréfi UST koma Blái herinn, Faxaflóahafnir, Björgunarsveitin Ársæll, Special Tours, Whale Safari og Reykjavíkurborg að verkefninu. Gert er ráð fyrir að 5-15 manns vinni að hreinsuninni í nokkrar klukkustundir þennan eina dag. Ruslið verður flutt í land.
Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, sagði að þau væru í alþjóðasamtökum sem skipuleggja Alþjóðahreinsunardaginn. „Þá eru þjóðir heimsins hvattar til að tína rusl í nærumhverfi sínu,“ sagði Tómas. Hann sagði að Blái herinn hefði ákveðið að hreinsa til í eyjum á Kollafirði og væri að leita stuðnings til þess. Lögð verður áhersla á Akurey og Engey að þessu sinni. Akurey er friðuð og eyjarnar viðkvæmar og ekki hægt að hleypa hverjum sem er þangað. Fólk er hvatt til að hreinsa nærumhverfi sitt á Alþjóðahreinsunardeginum 21. september.