Nýta tækifærið til að láta Pence „heyra það“

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna. AFP

Ellefu félagasamtök hafa boðað til mótmæla á Austurvelli á morgun undir yfirskriftinni „Partý gegn Pence“ þar sem komu Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna, er mótmælt. Mótmælin beinast að stefnu Trump-stjórnarinnar á ýmsum sviðum. 

„Við hvetjum fólk til að mæta. Það eru svo margir vinklar til að mótmæla,“ segir Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga.

Í boðun mótmælanna á Facebook segir að stefna Pence og stjórnarinnar í Hvíta húsinu misbjóði mörgum Íslendingum. Fjöldi félagasamtaka hafi tekið höndum saman um að skipuleggja fund sem verður vettvangur fólks til að tjá afstöðu sína til stefnu Trump-stjórnarinnar í friðar- og afvopnunarmálum, kvenfrelsismálum, málefnum hinseginfólks, á sviði umhverfisverndar og framkomu við flóttafólk.

„Þeir sem mæta eru hvattir til að mæta með spjöld og láta í sér heyra,“ segir Guttormur. Hann er, eins og titill hans gefur að kynna, ekki hrifinn af hernaðarundirbúningi vegna fundarins. Guttormur telur að Pence mun ræða hernaðarmál á fundum sínum með íslenskum ráðamönnum, ekki einungis norðurslóðir og viðskipti.

Guttormur Þorsteinsson.
Guttormur Þorsteinsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Spurður hvort honum finnist kannski ekki æskilegt að íslensk stjórnvöld taki á móti varaforseta Bandaríkjanna segir hann það ekkert aðalatriðið. 

Það verður að nýta tækifærið fyrst hann er hérna, hvort sem það er æskilegt eða ekki, til að láta hann heyra það. Einnig að láta íslensk stjórnvöld heyra það að við kvittum ekki upp á hans skoðanir og við látum vita af því,“ segir Guttormur.

Ein félagasamtakanna sem boða til mótmælanna er ungliðahreyfing Vinstri-grænna. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður VG, fundar með Pence annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka