Það væri „svolítið skrítið“ ef Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hættir við að þiggja hádegisverðarboð Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands á Bessastöðum. Þetta segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Áður hafði verið greint frá því í fjölmiðlum að varaforsetinn hefði þekkst boð forseta Íslands um að snæða með honum hádegisverð ásamt formönnum þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Nú er ekki lengur víst að það verði nokkuð úr hádegisverðarboðinu en dagskrá varaforsetans hefur verið á reiki síðustu daga og enn ekki komin á hreint.
„Það er svolítið skrítið en það kann vel að vera að það sé bara dagskrá varaforsetans sem gerir það að verkum. En það virkar ofurlítið skrýtið,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.
Hann segir það ekki endilega óvenjulegt að varaforseti Bandaríkjanna heimsæki land og þjóð án þess að hitta forseta Íslands heldur fari það allt eftir dagskránni og það þurfi ekki að tákna neitt sérstakt.
Spurður hvort Bandaríkjastjórn sé að senda einhver skilaboð til Íslendinga ef varaforsetinn hætti við að hitta forseta Íslands svarar Ólafur:
„Það er alveg hugsanlegt. En ég þori ekki að fullyrða um það.“
Þá hafa fjölmiðlar að sama skapi fjallað mikið um fund Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra með varaforsetanum en þau munu hittast í húsnæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli. Áður hafði komið fram að Katrín myndi ekki hitta Pence þar sem hún yrði stödd á þingi Norræna verkalýðssambandsins um helgina.
Sú ákvörðun vakti mikla athygli og gagnrýni fjölmiðla og almennings bæði hér á landi og erlendis. En eftir fund Katrínar með sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi lýsti hún sig reiðubúna til að funda með Mike Pence. Munu þau mætast á „miðri leið“ í Keflavík.
„Það er nú sennilega frekar óvenjulegt [að þau hittist á flugvellinum í Keflavík] en hins vegar eru ýmis dæmi um það ef dagskrár leiðtoga eru þannig að þær rekast á að þá hittist þeir á flugvöllum. Ég man eftir dæmum um að það hafi gerst bæði á Keflavíkurflugvelli og Heathrow-flugvelli í London,“ segir Ólafur.
Telur þú að ákvörðun Katrínar um að hitta varaforsetann hafi eitthvað að gera með gagnrýni sem hún varð fyrir þegar til stóð að hún myndi ekki funda með honum?
„Það er erfitt að segja hvort gagnrýni hafi haft þarna áhrif en hins vegar undirstrikar hún það með þessu að það er ekki af prinsippástæðum sem hún ætlaði ekki að hitta hann,“ segir Ólafur sem staddur er á ráðstefnu í Wrocław í Póllandi.