Tillaga um snjallvæðingu í umferðar- og ljósastýringu vísað frá

Fundur í borgarstjórn Reykjavíkur stendur yfir.
Fundur í borgarstjórn Reykjavíkur stendur yfir. mbl.is/​Hari

Tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um snjallvæðingu í umferðar- og ljósastýringu árið  2020 var vísað frá á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Talsverðar umræður sköpuðust um tillöguna og þurfti forseti borgarstjórnar Sabine Leskopf að minna borgarfulltrúa reglulega á að frammíköll liðust ekki. 

Sterk krafa var frá minnihlutanum að und­ir­búa útboð vegna ljós­a­stýr­ing­ar og snjall­væðing­ar í um­ferðar­stýr­ingu og að slíkt yrði gert á fjögurra ára fresti. Bent var á að mikil hagræðing fælist í því að samræma ljósastýringu og þar með stytta tíma fólks í umferðinni. Í máli fulltrúa Sjálfstæðisflokks kom fram að kerfið væri gamalt og fylgdi ekki þróun á þessu sviði líkt og hjá öðrum borgum í heiminum.

„Hvergi í heiminum er verið að nota kerfið sem við erum að nota því það er svo gamalt. Það hefur margt gerst á þessum 15 árum,“ sagði Ólafur Guðmundsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks og umferðarfræðingur, í ræðu sinni. Hann fór meðal annars yfir þekkingu sína á þessu sviði sem spannar fleiri áratugi. 

„Þetta er eina sveitarfélagið sem hefur ekki hlustað á mig. Ég hef gert úttektir hjá 20 sveitarfélögum. Ég ákvað því að gefa kost á mér í stjórnmálin svo ég gæti talað beint við fólk. Ef ég hefði ætlað að leggja stjórnmálin fyrir mig hefði ég verið löngu búinn að því. Þetta var nauðvörn til að opna augu manna fyrir þessu. Þess vegna er þessi tillaga hér,“ sagði Ólafur. 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks ítrekuðu að þetta væri tillaga sem flestir ættir að geta sameinast um. Örn Þórðarson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, hvatti fólk til að „hætta þessum skrípaleik“ og samþykkja tillöguna sem nýttist öllum. Hann sagði jafnframt að ef meirihlutinn tæki upp tillöguna lítið breytta og legði hana fram myndi hann þrátt fyrir það samþykkja hana.  

„Það er mikill munur á skoðunum og stefnu í þessum málum,“ sagði Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra kom fram að sífellt væri verið að uppfæra snjallhlutann af ljósastýringunni og samhæfingunni. „Reykjavíkurborg bætti í þennan hluta með ráðningu sérstaks starfsmanns árið 2017,“ sagði Dagur. Hann benti einnig á að samhæfing gæti skilað árangri en hún gæti líka búið til óþarfa tafir á umferð „og þær viljum við ekki“.

Dagur ítrekaði að áætlun lægi fyrir í þessum efnum sem væri unnin í samvinnu við Vegagerðina. 

„Þetta lýsir litlu hugrekki. Betra hefði verið að hægt hefði verið að kjósa um tillöguna.“ Þetta segir í bókun Sjálfstæðisflokks eftir að frávísunartillagan var samþykkt. Í bókun Flokks fólksins var bent á að tillagan „ætti að vera að komin fram fyrir löngu og ætti að koma fram frá meirihlutanum“. 

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, sem var send eftir að frávísunartillagan var samþykkt, kemur m.a. fram að áætlanir geri ráð fyrir að á árinu 2022 verði öll umferðarljós á höfuðborgarsvæðinu tengd í miðlæga stýritölvu umferðarljósa (MSU). „Á undanförnum árum hefur verið unnið að samtengingu umferðarljósa á höfuðborgarsvæðinu og miðlægri stýringu þeirra, en verkefnið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar,“ segir í tilkynningunni. 

Fundur borgarstjórnar stendur enn yfir en hlé var gert um kl. 18 í 3. lið þar sem rætt er um tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri-grænna um innleiðingu matarstefnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka