„Á ég að vera Gorbatsjev?“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, heilsast í Höfða í dag. mbl.is/​Hari

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í Höfða rétt eftir klukkan 14. Pence þakkaði fyrir hlýjar móttökur en þetta er í fyrsta sinn hann og eiginkona hans, Karen Pence, koma til landsins. 

Guðni ávarpaði varaforsetann að viðstöddum fjölmiðlum. Guðni sagðist vona að Pence-hjónin myndu njóta dvalarinnar hér á landi, þótt stutt yrði, og að varaforsetinn fengi tilfinningu fyrir þeim gildum sem íslenska þjóðin héldi í heiðri, til að mynda frelsi, fjölbreytileika og virðingu fyrir náunganum. 

Að því loknu tók Pence við og sagði hann Bandaríkin stolt af því að hafa verið meðal fyrstu ríkja sem viðurkenndu sjálfstæði Íslendinga árið 1944.

Hann vakti einnig athygli á því að Ísland væri eitt af stofnríkjum NATO og að samband ríkjanna væri sterkt. Pence kvaðst hlakka til fundahalda í dag og lagði áherslu á sterkt samband ríkjanna og sagði bönd þeirra órjúfanleg. 

Hernaðarmál voru óneitanlega fyrirferðarmikil í ávarpi Pence og þakkaði hann til að mynda fyrir samstarfið á sviði öryggismála og hlutverk Landhelgisgæslunnar. Vísaði hann einnig til þess, að umsvif Rússa og Kínverja væru vaxandi á norðurslóðum og sagði að samstarf Íslands og Bandaríkjanna um að gæta hagsmuna sinna á þessu svæði væri afar þýðingarmikið. 

Að lokum stilltu þeir sér upp fyrir myndatöku, í sömu sætum og Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev gerðu á leiðtogafundinum í Höfða 1986. „Á ég að vera Gorbatsjev?“ spurði Guðni og uppskar mikinn hlátur frá Pence og viðstöddum.

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom til Höfða nú rétt fyrir …
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kom til Höfða nú rétt fyrir kl. tvö. Hann byrjaði á því að ræða stuttlega við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
Það fór á vel með þeim Guðna Th. Jóhannessyni og …
Það fór á vel með þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Mike Pence í Höfða. Karen Pence, eiginkona varaforsetans, og Eliza Reid, forsetafrú Íslands, fylgjast með. mbl.is/​Hari
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna við komuna í Höfða.
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna við komuna í Höfða. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við Höfða í dag.
Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid við Höfða í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert