Ætlar að ræða herstöð við Katrínu

Mike Pence skrifar í gestabókina í Höfða.
Mike Pence skrifar í gestabókina í Höfða. mbl.is/Hari

„Það er mikill heiður að koma til Íslands, ekki bara sem stjórnmálamaður heldur af því að ég, sextugur maður, hef aldrei komið til Íslands,“ sagði Mike Pence skömmu áður en hann yfirgaf Höfða.

Pence fór yfir mikilvægi norðurslóða og sagði Ísland, nú sem áður, mikilvægan bandamann Bandaríkjanna. Það væri sérstaklega mikilvægt nú þegar Rússar og Kínverjar renndu hýru auga í átt að svæðinu. 

Varaforsetinn sagðist hafa hvatt Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra til þess að hafna kínverska fjarskiptarisanum Huawei. Hann sagði það ánægjulegt að Íslendingar hefðu hafnað tilboði Kínverja um að taka þátt í fjárfestingaáætlun þarlendra stjórnvalda „Belti og braut“.

Ekki hefur áður komið fram opinberlega að stjórnvöld hafi hafnað tilboði Kínverja. 

Pence svaraði ekki beint þegar hann var spurður hvort það hefðu verið mistök þegar bandarísku herstöðinni var lokað á Keflavíkurflugvelli árið 2006. Það væri eitt af því sem hann ætlaði að ræða við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra á flugvellinum í kvöld. 

Aðspurður ítrekaði Pence stuðning við ákvörðun Breta um að ganga úr Evrópusambandinu. Hann sagði að bandarísk stjórnvöld myndu styðja bresku ríkisstjórnina í þeim ákvörðunum sem yrðu teknar en Pence flýgur til London frá Keflavík í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka