Býður „hinseginfælinn“ Pence velkominn

Dóra Björt Guðjónsdóttir.
Dóra Björt Guðjónsdóttir. mbl.is/Hari

„Líkt og aðrir bandamenn ykkar erum við Íslendingar því áhyggjufull yfir því að Hvíta hús ykkar Trumps fjarlægist stöðugt gildi samvinnu, frelsis og ábyrgðar,“ skrifar Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, í opnu bréfi til Mikes Pence, varaforseta Bandaríkjanna.

Dóra býður Pence velkominn til Reykjavíkur og vonar að heimsóknin verði honum ánægjuleg. Hann kom til landsins í hádeginu og fer af landi brott í kvöld.

Dóra segir að hættan sé sú að ef sama þróun haldi áfram gætu Bandaríkin misst leiðandi stöðu sína og orðin utanveltu, áhrifalítil og vinafá.

„Hinseginfælin stjórnmál þín og Trumps, stríðið gegn réttindum kvenna, barátta gegn líkn gagnvart börnum innflytjenda sem aðskilin eru frá foreldrum sínum og úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu eru dæmi um afstöðu sem grafa undan góðum samskiptum Bandaríkjanna við Ísland og umheiminn,“ skrifar Dóra.

Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna fundar í Höfða.
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna fundar í Höfða. mbl.is/Árni Sæberg

Hún segir að upplifun Pence af Reykjavík verði ekki heil ef varaforsetanum sé ekki bent á að réttindi hinseginfólks séu Reykvíkingum tilefni til stolts en ekki yfirvofandi samfélagshruns. „Verði ferðin til Reykjavíkur þér innblástur til breytinga og samkenndar með hinseginborgurum Bandaríkjanna og heimsins,“ skrifar Dóra.

Einnig segist Dóra ekki óska neinum þess að koma til Íslands og láta anda og sögu kvennabaráttunnar fram hjá sér fara. Hún vonast til þess að Vigdís Finnbogadóttir, fyrsti lýðræðislega kjörni kvenkyns forseti heims, veiti honum innblástur ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrstu opinberlega samkynhneigðu konunni sem gegndi starfi forsætisráðherra á heimsvísu.

Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu vegna komu Pence til Íslands.
Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu vegna komu Pence til Íslands.

„Kæri Pence, Reykjavík er fjölskylduvæn borg þar sem börn njóta frelsis til að þroskast og dafna. Vertu velkominn að njóta þess anda á meðan þú ert hér. Megi sú íhugun verða þess valdandi að þú og forseti Bandaríkjanna snúið frá þeirri vegferð að réttlæta fangelsun barna, aðskilnað frá foreldrum og vistun í aðstæðum sem ganga gegn hugmyndum okkar um mannúðlega meðferð allra,“ skrifar Dóra.

Hún bendir enn fremur á að íslenskur almenningur kæri sig lítið um að dragast inn í hernaðarkapphlaup stórveldanna vegna norðurslóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert