Ítrekaði sérstöðu Íslendinga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna. mbl.is/Hari

„Það var áhugavert að ræða við hann, þetta varð hálftíma langur fundur. Það hafði auðvitað verið óvissa um hvort það tækist yfir höfuð að halda þennan fund, en það tókst,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum fundi með Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar.

Í aðdraganda fundarins var fjölmiðlafólki veittur aðgangur að fulltrúum ríkjanna tveggja, Íslands og Bandaríkjanna, áður en fundur þeirra hófst. Þar varð vart við nokkurn áherslumun með tilliti til umræðuefna, en Pence lagði áherslu á viðskipti og efnahagsmál auk varnarmála. Þar var hún spurð út í ummæli Pence um að Íslend­ing­ar hefðu hafnað til­boði Kín­verja um að taka þátt í fjár­fest­inga­áætl­un þarlendra stjórn­valda „Belti og braut“. Katrín sagði að engin ákvörðun hefði verið tekin um þetta verkefni. 

„Við ræddum efnahagsmál og viðskiptasamskipti þessara landa sem eru auðvitað mikil. Hann var mjög ánægður með þann fund sem hann átti með forsvarsmönnum íslensks atvinnulífs fyrr í dag og ræddi það sérstaklega,“ segir Katrín, en við það tilefni lýsti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra yfir vilja til þess að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin.

Norðurslóðir, loftslagsvá og jafnréttismál

Katrín ræddi norðurslóðir, loftslagsvá og jafnréttismál við varaforsetann. „Við ræddum um norðurskautið og ég fór yfir okkar áherslur og formennskuáætlun okkar [í norðurskautsráðinu] sem er auðvitað mjög skýr. Þar leggjum við áherslu á að halda friðinn á norðurslóðum og berjast gegn loftslagsvánni, huga sérstaklega að hafinu, enda er þetta sérstaklega viðkvæmt svæði, og síðan auðvitað fólkinu sem býr þarna í kring sem gleymist oft í allri þessari umræðu,“ segir Katrín og nefnir í þessu samhengi að svæðið hafi undanfarið verið í deiglunni. „Það liggur fyrir mikill áhugi af hálfu stórvelda á þessu svæði, en mér fannst mikilvægt að markmiðum okkar, smáþjóðarinnar hér, yrði skýrt komið á framfæri,“ segir hún. 

Katrín jánkar því að þau Pence séu ekki samstiga í pólitísku tilliti. Spurð hvort Pence hafi sýnt áherslumálum Íslendinga áhuga og hvort hann hafi viljað ræða þau í þaula kveðst hún einfaldlega hafa sagst vilja ræða þessi mál. „Hann stóð ekki upp og fór,“ segir Katrín og hlær.

„Við erum ekki pólitískt sammála, en ég vildi nýta þetta tækifæri þegar ég hitti fulltrúa Bandaríkjastjórnar til að leggja áherslu á okkar sýn í þessum málum, þ.e.a.s. okkar stefnu í loftslagsmálum. Ég sagði honum frá því sem við erum að gera, að ég teldi vera tækifæri í samvinnu þessara þjóða, ekki síst þegar kemur nýsköpun, rannsóknum og endurnýjanlegum orkugjöfum,“ segir Katrín.

„Ég fór að sjálfsögðu líka yfir kynjajafnréttismál, af því ég geri það alltaf. Og það veitir ekkert af,“ segir hún.

Ítrekaði að Íslendingar séu herlaus þjóð

Hernaðarmál voru einnig rædd að sögn Katrínar, en fram undan er uppbygging Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli. „Þar kom ekkert meira fram en það sem hefur verið boðað,“ segir Katrín. Spurð hvort á þessu sviði hafi orðið vart við ólíkar skoðanir kvaðst hún hafa talað fyrir stefnu íslenskra stjórnvalda. „Stefna íslenskra stjórnvalda er að leita alltaf friðsamlegra lausna, en við erum meðlimur í Atlantshafsbandalaginu og erum með þennan varnarsamning við Bandaríkin,“ segir Katrín.

„Ég lagði áherslu á að þrátt fyrir að við séum í NATO, þá erum við herlaus þjóð. Við höfum alltaf notið þeirrar sérstöðu og lagt okkar fram á borgaralegum forsendum. Ég ítrekaði það,“ segir hún.

Spurð hvort Pence hafi lýst yfir áhuga Bandaríkjanna á að koma upp herstöð hér á landi á ný segir Katrín að varaforsetinn hafi talað um slíkt. „Ekki sagði hann það, en talaði um þetta á sömu nótum og þeir [Bandaríkjamenn] hafa gert hingað til, þ.e.a.s. um sveitir sem geta lent hér o.s.frv.,“ segir Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka